Niðurstaðan komin ! Jólabjórinn - Athyglisvert blindsmakk.

100_1199Matarsíða áhugamannsins fékk 6 aðila í heimsókn til jólabjórsmökkunar, 8 tegundir af jólabjór sem eru allar þær tegundir sem fást í Vínbúðinni, fimm íslenskar og 3 erlendar. Smökkunin var fagmannlega unnin, við höfðum þjón sem bar bjórinn inn í númeruðum glösum eina tegund í einu. Hver og einn skrifaði sína umsögn um hverja tegund og að lokum raðaði þeim í sæti frá 1 - 8 og það glas sem lenti í fyrsta sæti fékk svo 8 stig hjá hverjum aðila og síðan koll af kolli niður i  eitt stig fyrir bjórinn í áttunda sæti. Menn ræddu málin ekki mikið á meðan smakkinu stóð. Allir skiluðu sínum niðurstöðum og spennan var mikil  er þjónninn upplýsti hvaða bjórar voru í smökkuninni því ekki 100_1198var það gefið upp fyrirfram og svo þegar í ljós kom hvaða bjór leyndist á bakvið hvert númer. Athyglisvert var að allir sex aðilarnir reyndust hafa gefið sömu tegundinni fullt hús. En hér kemur niðurstaðan og byrja ég á sæti átta og enda á bjórnum sem lenti í fyrsta sæti með fullt hús. Þetta var mjög skemmtilegt og gaman að gera þetta með þessum hætti og ég minni á að þetta er skoðun sex áhugamanna ( Rafvirki, framkvæmdastjóri, fiskverkandi, verkstjóri, sjómaður og iðnhönnuður :) ) Í lokin völdum við fallegustu miðana til gamans.


Sæti 8  - 12 stig -  Jólabjór Ölvisholt ( Skjálfti)
100_1213
Mjög bragðmikill með lakkrískeim, mjög dökkur, töluvert áfengisbragð, ekki mjög góður. Frekar vondur og sterkur , fínn eftir kl 5 á Sjómannadagsnótt þegar allta annað er búið. Dökkur, flatur allt i lagi að smakka einn svona einan og sér, kryddaður kanill, engifer, negull mikið eftirbragð. Jólailmur af þessum Lakkrís, kanill, negull og fleira krydd, mjög sérstakur meira eins og jóladrykkur en ekki bjór. " Gleðileg jól" fallega rauður, karamella, ávextir, og bragðmikill lakkrís.

 

Sæti 7  - 17 stig -  Egils maltbjór100_1210
Mjög dökkur, örlítið flatur og bragðmikill, gott jafnvægi í bragði miðað við dökkan bjór. Mjög dökkur, líkur malti, eftirbragð sem mér líkar ekki. Dökkur sætur bjór. Sætur, maltaður, ekki fyrir mig en spennandi bjór. Gott bragð, maltbragð, örugglega ágætur með hangikjötinu, heldur sætur, ekki til að drekka marga í einu. Mjúkur , gott bragð, mikið og gott eftirbragð.


Sæti 6  - 20 stig -  Royal Xmas hvítur
100_1220Bragðmikill, bragðgóður og þéttur, aðeins dökkleitur, mjög sætur með eplakeim, smakkast vel í fyrstu en verður væminn eftir nokkra sopa, of sætur. Fallega gullbrúnn, sérstakur, eins og hann sé líkur freyðivíni. Ferskt bragð, gos og frekar sætur. Svolítið gerbragð, sætur, lítil remma, virkar léttur, ekki fyrir minn smekk of sætur. Mjög góður, fallegur á litinn, konubjór, góður sætur drykkur. Mjúkur mildur sætur karamellu, eplakeimur.

Sæti 5  - 25 stig -  Egils jólabjór100_1208
Frekar bragðdaufur, vatnsbragð, léttur og ljósleitur. Mjúkur, meðalrammur, pilsnerbragð. Bragðlítill, fínn eftir íþróttaæfingar. Bragðléttur, lítil kolsýra, nokkuð góður. Bragðlítill, léttur, ágætur til að drekka einan og sér. Ferskur, léttur mjög hlutlaus. 

 

Sæti 3 -100_1206 4  - 29 stig -  Tuborg Christmas Brew
Bragðmikill, töluvert maltbragð, þéttur áfengiskeimur. Góður, aðeins rammt eftirbragð. Dökkleitur, aðeins rammur. Góður með hangikjötinu, aðeins maltaður, rammt en gott eftirbragð, lítil kolsýra. Jólalegur, millidökkur en bragðgóður. Djúpur, maltbragð, bragðmikill, mjög góður.

 

Sæti 3 - 4  - 29 stig -  Jólakaldi100_1207

 Millidökkur og bragð góður, karamellukeimur, nokkuð góður. Rammt eftirbragð annars nokkuð góður bjór. Vont eftirbragð, fallegur á litinn. Þurrkar munninn, dökkur og örlítið rammur, ekki fyrir minn smekk en það má venjast honum við meiri smökkun, passar örugglega vel með jólamatnum. Nokkuð góður bjór, fallegur á litinn, örugglega frábær með mat, rammt eftirbragð. Góður, ferskur, karamella, mikið og gott eftirbragð.

 

Sæti 2 - 36 stig - Royal Xmas blár
100_1217
Mjög góður og ferskur, mikil kolsýra, sem svarar sér mjög vel, góð karamella. Góður, ágætt eftir bragð, pínu rammur. Þokkalega góður, bragðmikill, dálítið sterkur, fallegur koníakslitur. Millidökkur, dálítið kolsýrður, ágætis bjór. Örlítil remma, rennur ljúflega niður, mjög góður. Mjúkur, bragðgóður en skilur ekki mikið eftir sig.

 

Sæti 1 - 48 stig - fullt hús - Viking jólabjór100_1214
Bragðmikill, bragðgóður og þéttur, meðalljós, alvörubjór. Mjög góður, nánast fullkominn, fallegur gullinn litur. Góður, dálítil kolsýra, ekki mikil remma, gott eftirbragð, gott að drekka hann einan og sér. Gott bjórbragð, fallegur, rennur ljúflega niður, virkilega góður bjór, mæli með honum. Góð áferð, bragðgóður, ferskur, nánast fullkominn jólabjór.

 

Í lokin ræddum við um miðana eða útlitið og kusum fallegustu jólabjórmiðana.
1. sæti - Viking Jólabjór
2. sæti - Egils jólabjór
3 sæti -  Tuborg
4 sæti - Jólakaldi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er áhugavert að sjá að Viking Jólabjór sé valinn besti bjórinn af þér og þínum félögum.  Regla númer 1 í bjórsmökkun er að smakka bjórinn úr glerglasi sem hefur verið skolað að innan, annars er ekki hægt að dæma hluti eins og haus.

Þetta er gott framtak hjá þér en sæti 1-2 eru að mínu mati lélegir bjórar sem eru fyrst og fremst markaðvara og tæki til þess að koma alkahóli í heilann á fólki og eiga lítið sameiginlegt með bjór.  Tuborg er líka arfaslakur jólabjór.

Samkvæmt valinu eruð þið félagarnir fyrst og fremst að leita að gos miklum drykkjum sem innihalda viðbættann sykur sem bætt er í til þess að leyna þann sem neytir upprunanum, þ.e.a.s að þetta sé bjór.

Hérna er dæmi um atriði sem má skrá hjá sér:

 

Stigagjöf:
Þitt persónulega mat á því hvað þér finnst gott, 1 = verst, 5 = best
Froða:
Er froðuhausinn í réttri stærð (getur verið mis mikill- lager bjór er oft með lítinn haus), hver er líftími froðuhaussins, hverfur froðan strax?.  Lítil froða þýðir
lítið malt en mikinn sykur, þá er meiri hætta á of miklu gosi og bjórnum hættir til að vera súr.
Litur:
Kopar, gylltur, dökkur, tær, gruggugur, mattur (mismunandi eftir bjórtegund, við viljum í kvöld að þeir séu tærir og hreinir)
Lykt:
Frúttuð (ávaxakeimur, epli, o.s.frv)=fer eftir gerjun á bjór.
Maltað, hnetulykt, sætt, kornað = fer eftir korninu
Krydduð, grösug (jurtalykt), fura (furaður) = fer eftir humlunum
Bragð:
Fáið ykkur sopa og veltið honum í munninum til að ná til allra svæða tungunnar, metið eftirfarandi þætti
Rammur, sætur, súr, frúttaður, brenndur, kryddarður.  Eru humlar í góðu jafnvægi við maltið þannig að bjórinn verður ekki of sætur eða of rammur.
Hvaða bragð finnur þú? Kaffi, súkkulaði, epli, malt, karmellu, hunang eða eitthvað annað.
Skrokkur:
Er bjórinn frekar léttur í munni, er hann "fyrirferðalítill", hefur hann rýran skrokk (til dæmis Budweiser frá USA), er hann kannski frekar þéttur, finnur þú
vel fyrir bjórnum í munninum?
Eftirbragð
Er það stutt, langt.  Fer í raun eftir hvort það sé gott eða ekki.  Gott eftirbragð á það til að vera langt.     

Heimir Hermannsson (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 16:23

2 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Komdu sæll Heimir og takk fyrir innlitið og þína skoðun. Eins og kemur vel fram hjá okkur, þá erum við áhugamenn og við höfum ekki mikla reynslu af smökkun, en það má segja að við séum eins og fólkið af götunni sem velur bjór sem því líkar, það gerðum við.  En punktana þína er gott að hafa til hliðsjónar næst þegar við tökum smakkkvöld, það munum við gera því þetta var skemmtilegt og fengið afar skemmtileg viðbrögð við þessu jólauppátæki okkar. 

Júlíus Garðar Júlíusson, 3.12.2008 kl. 16:31

3 identicon

Skemmtileg lesning fyrir alla sem kunna að meta góðan bjór.  Legg til að þið fjárfestið í Samuel Adams Winter Lager, klárlega lang besti jólabjórinn, allt annað er algjör æfing.  Uppgötvaði hann fyrir nokkrum árum þegar hann var fyrst tekinn inn og ætlaði svo að kaupa eina kippu svona rétt fyrir jól en þá var hann uppseldur og kom ekki aftur, ég þurfti því að bíða í 12 mánuði eftir næstu sendingu.  Innflytjandinn hefur sem betur fer ekki látið það koma fyrir aftur.  Góðar stundir.

Nökkvi Svavarsson (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 21:50

4 Smámynd: Ólafur Helgi Rögnvaldsson

Sæll Júlli.

Gaman að heyra að bjóráhugamenn séu að rísa upp hérna á Íslandi og skrifa bjórdóma, og ekki slæmt að áhuginn skuli vera svona góður á Dalvík.

Ég breyttist í bjórnörd eftir 2 ára dvöl í Danmörku og núna get ég varla drukkið bjór án þess að byrja á því að skoða litinn, þefa af honum og stúdera svo bragðið.  En það er virkilega gaman að smakka mismunandi bjóra og láta reyna svolítið á bragðlaukana.

Ég keypti alla jólabjórana sem ég fann í Ríkinu á Akureyri en hef því miður ekki komist í að drekka marga þeirra.  Ég smakkaði Jólakalda um daginn og er að drekka jólabjórinn frá Ölvisholti akkúrat núna.

Það gæti verið að við séum ekki með sömu markmið í huga þegar við drekkum bjór.  Ég reyni að stúdera lyktina, litinn, bragðið, froðuna og fleira og legg það saman til að finna hvort að mér líki við bjórinn.  Ég spái ekki svo mikið í það hvort að bjórinn passi vel með mat eða hvort að ég gæti drukkið heila kippu af honum.  Mér finnst það vera nóg að drekka einn bragðmikinn og láta það nægja.  Það er ekki verra ef að bjórinn passar vel með mat en mér finnst það svo sem ekki aðalatriðið.

En gott framtak hjá þér að græja jólabjórsmakk og koma niðurstöðunum á netið.  Ég hef tekið þátt í nokkrum svona smökkum þegar ég bjó í Danmörku og niðurstöðurnar úr nokkrum þeirra er hægt að sjá á www.bjorbok.net/Kiddi.htm.  Svo er alltaf gaman að skoða "biblíuna" www.bjorbok.net.

En ég krefst þess að fá að vera þáttakandi í Jólabjórsmakki Júlla Júl 2009 ;)

Kveðja,
Óli Helgi.

Ólafur Helgi Rögnvaldsson, 3.12.2008 kl. 22:20

5 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Gaman að þessu... það gáfulegasta sem ég get skrifað

Eigðu góðan dag

Jónína Dúadóttir, 4.12.2008 kl. 07:23

6 identicon

Sælir, ég rakst á þessi skrif ykkar fyrir tilviljun. Skemmtilegt að fá að lesa þetta hjá ykkur og gott uppátæki hjá þér. Það er greinilegt á þessu hjá ykkur að þið eruð fulltrúar hins almenna íslenska bjórdrykkjumans sem er ekkert til að skammast sín fyrir. Að hinir léttu frekar látlausu lager bjórar (reyndar eru þetta allt frekar óspennandi bjórar) hafi vinninginn kemur upp um ykkur þar :) Það er akkúrat þetta sem er vandamálið heima á klakanum, þegar inn koma spennandi virkilega vandaðir bjórar þá falla þeir oftast ekki í kramið hjá Íslendingum sem vanir eru carslberg eða tuborg. Ég hvet ykkur því til að gefa t.d. Ölvisholt bjórnum séns, smakka hann aftur með annað hugarfar...bara svona til að prófa. Svo vil ég endilega benda á Móra sem ég tel klárlega vera besta ísl. bjórinn. Það er samt bjór sem maður þarf að skoða og pæla dálítið í. Eins er Samuel Adams Winter Lager sem Nökkvi bendir á skemmtilegur bjór sem vert er að skoða.

Kv

Freyr

www.bjorbok.net

Bjórbókin (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 14:21

7 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Takk fyrir aldeilis góðar pælingar og vangaveltur hér. Sæll Nökkvi... Fæst Samuels Adams Winter í ÁTVR núna ? Freyr takk fyrir skrifin, kannski erum við bara byrjendur  í að rýna í bjórinn, en við höfum áralanga reynslu af honum  hver veit nema að við eigum eftir að þroskast í aðrar áttir. Þetta vorur þessar átta tegundir af jólabjór sem okkur var tjáð að væru til í ríkinu og þetta er okkar heiðarlega niðurstaða með þá, hvort að aðrir bjórar séu betri eða verri skal ósagt látið að þessu sinni. En sannarlega skulum við gefa Ölvisholti séns og við eigum eftir að smakka Móra. Óli Helgi... það væri okkur heiður að fá þig övrum Vaðlaheiðina fyrir næstu jól....Gagn og gaman af því...og alltaf gott að fá þig þangað sem þú átt heima  .Enn og aftur takk fyrir skrifin allir......þar til næst skál  

Júlíus Garðar Júlíusson, 4.12.2008 kl. 14:55

8 identicon

Sæll aftur, já hver veit nema að þetta séu fyrstu skrefin inn í hinn dásamlega heim bjórsins. Þú mátt ekki taka þetta sem gagnrýni hjá mér hérna að ofan, það var amk ekki meint þannig. Það er svo rétt hjá þér, úrvalið af jólabjór heima er hræðilegt og líklega rétt að þetta sé það sem fæst heima. Það er því lítill séns fyrir ykkur að smakka alvöru jólakarla. Heheh svo verð ég að viðurkenna eitt...og þú mátt ekki hafa það eftir mér en mér finnst og hefur alltaf fundist Víkin Jólabjórinn bara ansi vel lukkaður lagerbjór. Stundum er maður einfaldlega bara stemdur fyrir lagerinn, ekkert flókið bara gott. Þá get ég vel hugsað mér Víking Jóla. Hef svo ekki smakkað Jólakalda...það er eitthvað sem ég verð að bæta úr. Kannski fæ ég Óla vin minn til að senda mér ;)

Kv

Freyr

Bjórbókin (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 16:44

9 identicon

Miðað við það sem ég hef smakkað hingað til sjálfur ... þá er Viking jólabjórinn sá besti. Veit ekki hver þessi Heimir í fyrsta kommentinu er, en finnst svolítið hrokafullt að dæma þetta sem slappa aðferð við smökkun og segja að Viking bjórinn sé fyrst og fremst markaðsbjór til að koma í hausinn á fólki.

Ef mér finnst makkarónur með osti og tómatssósu góður matur ... er það þá ekki góður matur? ( í mínum huga sko )

Ef ég fíla Viking jólabjór í tætlur ... er þá ekki eitthvert sannleikskorn í því að halda því fram að hann sé góður bjór?

Ef mér finnst Titanic og Dark Knight vera frábærar myndir ... er hægt að segja að ég sé með skrýtinn kvikmyndasmekk?

Mér finnst Megas ekki skemmtilegur. Hvað gerir það mig?

Punkturinn minn hér er einfaldur: frábær leið til að smakka bjór hjá Júlla og félögum - algjörlega í lagi, þar sem svona drekkur almenningur oft bjór - og um að gera að hafa gaman af þessu.

Annars vildi ég líka Júlli, þakka fyrir mig í gærkvöldi, þó svo að þú hafir ekki verið á staðnum. Réttirnir ykkar Friðriks V. voru auðvitað frábærir og þér voru gerð góð skil.

Bestu kveðjur.

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 01:00

10 Smámynd: Anna Guðný

Það er svo rétt hjá þér, úrvalið af jólabjór heima er hræðilegt og líklega rétt að þetta sé það sem fæst heima.

Þetta er nú eitt af því sem við erum að reyna að venja okkur af hér á landi.

Það að 300.000 manna þjóð sé með 8 tegundir af jólabjór á boðsstólum er bara þokkalegt, ekki satt?

Ég drekk ekki bjór en þetta er frábært framtak hjá ykkur. Gaman að sjá hvað norðan bjórinn er að koma vel út.

Mér heyrist þessi Hermann vera af suðurlandinu. Spurning hvort bragðskynið eða smekkurinn sé eitthvað öðruvísi þar? Væri gaman ef þeir tækju sig til og gerðu svona könnun líka og sjá hvort einhver munur sé.

Annars bara hafðu það gott

Anna Guðný , 5.12.2008 kl. 08:46

11 identicon

Þetta er magnað að fá svona vísbendingar eins og frá þessum Heimi.Eflaust þekkir mikið inná svona smakkanir,enn.  Það var það eina sem vantaði inn í umræðuna að maður þyrfti að henda þessu í sig með stólpípu.

Þórir Guð (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 06:49

12 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Skemmtileg yfirferð og áhugaverð. Tek undir með framangreindum kommenturum sem benda á Sam Adams jólabjórinn; hann er kryddaður og ljúffengur.

Hvað fyrstu athugasemd varðar þá finnst mér nú fara betur á því að láta nöfn almennilegra bjórtegunda, að hans mati, fylgja með fyrst hann hefur allar þessar tegundir á hornum sér og rúmlega það. Nema honum þyki kannski allur jólabjór vondur? Það kæmi ekki á óvart sé mið tekið af fúllyndinu sem skín í gegn um athugasemdina . . .

Jón Agnar Ólason, 10.12.2008 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Matarsíða áhugamannsins

Blogg um mat og drykk í sem víðustum skilningi.

Áhugamaðurinn

Júlíus Garðar Júlíusson
Júlíus  Garðar Júlíusson

Um síðuna

Nýjustu myndir

  • iStock 000014807979XSmall
  • iStock 000019931963XSmall
  • iStock 000018872168XSmall

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Spurt er

Hvað borðar þú fisk oft í viku

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband