Sterk upplifun

Sterk upplifun

Sek.
Leikfélag Akureyrar
Október 2013.

Spennandi, áhugaverð og ógleymanleg byrjun á hátíðarári hjá Leikfélagi Akureyrar.

"Vel gert" voru orð sem kom upp í hugann er ég gekk hugsandi en ánægður út í haustmyrkrið eftir aðalæfingu á leikritinu Sek eftir Hrafnhildi Hagalín hjá Leikfélagi Akureyrar þann 3. október s.l.

Í Sek er fjallað um dómsmál frá 19. öld vegna glæps sem átti sér stað á heiðarbýli á Melrakkasléttu. Hluti af texta verksins er tekinn beint upp úr dómsskjölunum.

Meðferð textans er sérstök og það tók mig smá stund að átta mig á því hvernig þetta var hugsað en fljótt áttaði ég mig á þessari áhrifaríku, hárfínu aðferð sem fólst í ákveðinni endurtekningu sem jók áhrif textans og verksins sjálfs. Þessi aðferð setur ljóðrænan eða tónlistarlegan blæ á verkið. Ég vil óska Hrafnhildi Hagalín til hamingju með  magnað og vandað verk, ég er þess fullviss að hún hefur lagt mikla vinnu í að finna út hinn rétta hárfína takt og hvað ætti að segja mikið eða í raun lítið en samt mikið.

Leikhópurinn allur er í einu orði sagt frábær. Vel samstilltur og hreinn unaður að fylgjast með einbeitingunni og hvað allir gáfu sig verkinu á vald, hver hreyfing svo rétt og hver andardráttur svo réttur. Það var frábært að sjá Þráinn Karlsson á sviðinu  í samkomuhúsinu og strákurinn er í toppformi. Í verkinu leika tvær ungar stúlkur sem skipta sýningunum á milli sín. Á sýningunni sem ég sá var það hin dalvíska Særún Elma Jakobsdóttir sem lék dótturina, leikur hennar var frábær og gæsahúðin gerði vart við sig á köflum. Það er sannarlega óhætt hugsa með tilhlökkun til þess að fá að sjá meira af henni.

Leikmyndin er með þeim betri sem ég hef séð, einföld en samt ekki einföld. Strax í upphafi nær hún þér og í öllu samhenginu er hún svo rétt. Þrátt fyrir að ég hafi ekki komið oft á Melrakkasléttu þekki ég hana samt og það var eins og að leikmyndin, þokan, einangrunin, bárujárnið, rekaviðurinn og snertingin við náttúruna flytti mig beint á staðinn þar sem að verkið gerist. Hvort sem að það var meðvitað eða ekki þá var mín tilfinning sú að leikmyndin, lýsingin og andrúmsloftið væri gerð hóflega hráslagaleg og köld til að aðrir hlutir fengu að njóta sín.

Í Sek hefur verið vandað til verka í alla staði, hvert einasta smáatriði úthugsað jafnt í texta sem í leikmynd. Það er alveg klárt að mikil vinna  hefur verið lögð í alla sýninguna allt frá því að hugmyndin að handritinu hefur kviknað og þar til verkið varð tilbúið til sýningar.  
Leikstjórnin er frábær hjá Ingibjörgu Huld. Það er svo gaman og gott fyrir sálina að sitja í vönduðu leikhúsi, þar sem að áhorfandinn finnur að mikil vinna hefur verið lögð í sýningu. Réttar staðsetningar og hreyfingar glæða textann og gera hann lifandi og á köflum var eins og að textinn væri upphleyptur og ég sá hann og merkingu hans flæða um sviðið í ákveðnum en hægum takti. Leikstjórinn á skilið verulega gott klapp á bakið fyrir sterka, hárfína og snyrtilega uppsetta sýningu. Ég bíð spenntur eftir að sjá meira frá Ingibjörgu Huld.

Að koma í leikhús setjast niður og vera snertur frá fyrstu stundu...vera sendur á vit töfra leikhússins og vakna ekki fyrr en ljósin eru kveikt og áhorfendur klappa... klappa til að vekja sig til raunveruleikans...klappa frá hjartanu..... er einstakt. Þetta gerist þegar allir leggja sig fram, það á svo sannarlega við í þessu magnaða verki í okkar frábæra leikhúsi. Ég skora á alla að láta SEK hjá Leikfélagi Akureyrar ekki framhjá sér fara.

Takk fyrir mig og til hamingju leikhússtjóri og hennar fólk fyrir góða vinnu, gott val á verki og aðstandendum sýningarinnar.

Júlíus Júlíusson


Dásamlegar Dagatalsdömur gleðja.....og gleðja.

Hið kraftmikla Freyvangsleikhús frumsýndi leikverkið Dagatalsdömurnar eftir Tim Firth í leikstjórn Sigrúnar Valbergsdóttur. Þann 1. febrúar s.l.

Leikritið er tileinkað ötulum félaga úr Freyvangsleikhúsinu, Hjördísi Pálmadóttur sem lést úr krabbameini 2011. Öll laun fyrir höfunda og sýningarrétt renna óskert til rannsókna á sjúkdómnum og einnig hefur Freyvangsleikhúsið ákveðið að gera enn betur og ánafna Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis hluta af miðasölu og hluta af sölu fallegs dagatals sem hefur verið gefið út.

Dagatalsdömurnar er frásögn af sannsögulegum atburðum sem áttu sér stað í uppsveitum Englands rétt fyrir aldamótin.  Krabbamein er sjúkdómur sem dregur fleiri til dauða en nokkuð annað.  Krabbamein er alls staðar og það geta allir fengið það.  Að missa ástvin úr krabbameini er hræðileg upplifun. Á svoleiðis stundum er gott að eiga góða vini, sem skilja mann og vita hvað þarf að gera til að hjálpa. Það er þörf upplifun fyrir landsmenn að skreppa í Freyvang og sjá hvernig alvöru ástvinir fórnarlambs krabbameins, heiðra minningu þess sem lést og létta sína eigin lund í leiðinni.  Leikritið var valið besta gamanleikritið í Englandi árið 2010.         

Leikarar í "Dagatalsdömunum"  eru hæfileg blanda af blanda af reynsluboltum og nýju hæfileikaríku fólki. Það er alveg ljóst að leikstjórinn Sigrún Valbergsdóttir  hefur unnið mikla og góða vinnu og náð afar vel til leikaranna. Flestar senurnar einhvern veginn svo réttar og hárfínar, jafnt gleði sem sorgarstundirnar. Ég er nokkuð viss um að æfingatímabilið hefur verið skemmtilegt og gefandi og mig grunar að margt sem hefur "óvart" gerst á æfingum hefur verið notað að lokum. Gleðin og einlægnin skilar sér fram í sal og með áhorfendum út í nóttina. Prik til leikstjórans.

Leikhópurinn er samrýmdur og fallegu kvenfélagskonurnar ná vel saman og treysta hver annari og leika allar mjög vel. Ég verð samt að minnast á eina eða tvær. Inga María Ellertsdóttir fer á kostum í hlutverki Kristínar, hún nær vel til áhorfendanna og nýtur þess sem hún er að gera. Linda Guðmundsdóttir í hlutverki Dóru er traust og hrífandi. Stefán Guðlaugsson sem leikur Robba manninn hennar Kristínar er frábær leikari og hrikalega fyndinn, Ingólfur Þórsson, Sigríður Jóna Pálsdóttir og Haukur Guðjónsson eru líka eftirminnileg , Sigríður skondin sem Berta Höskulds, Ingólfur er góður sem Jón Karlsson sérstaklega þegar líður á veikindin, Haukur ljáir Lárusi ljósmyndara skemmtilegan karakter.

Það örlaði á smá frumsýningarhökti en varla til að minnast á, þetta er eitthvað sem slípast til á einni til tveimur sýningum. Eftir hlé fannst mér koma smá kafli þar sem að dampurinn datt aðeins niður, hvort að það skrifast á verkið sjálft þar sem að það er kannski aðeins of langt eftir hlé eða á frumsýninguna er ekki gott að segja. Þetta er stuttur kafli og mér sýndist nú á áhorfendum að hefði ekki mikil áhrif.


Lýsingin er fagmannlega gerð og skilar sínu hlutverki, það sama má segja um hljóðmynd og  búninga (Þegar þeir eiga við) . Leikmyndin  er einföld og margt vel gert eins og t.d. blómin á hólnum og fleira. Ég ætla líka að minnast á aðra umgjörð, auglýsingar, leikskrá, starfsfólk í móttöku, markaðsmál og fleira er til fyrirmyndar og allir að vinna með hjartanu fyrir leikfélagið sitt.


Það var mikið hlegið og klappað á frumsýningunni og eflaust sáust líka tár á hvarmi.  Þetta er sýning sem ég mæli kinnroðalaust með og þeir sem vilja hlæja og hlæja meira eiga ekki að hugsa sig tvisvar um. Sýningin styrkir gott málefni, andann, hjartað og eflir blóðflæðið. Nú ætla ég ekki að uppljóstra miklu sem ber fyrir augu í þessari skemmtilegu sýningu en eitt get ég fullyrt að það er fallegt og þið skuluð ekki missa af því.

Til hamingju allir aðstandendur.
Júlíus Júlíusson.


Skilaboð úr skjóðunni.....

..... Í leikhúsið skal arka. Leikhúsgaldur fyrir alla fjölskylduna.

Frumsýning í Freyvangsleikhúsinu laugardaginn 6. október 2012 á Skilaboðaskjóðunni eftir Þorvald Þorsteinsson.

Leikstjóri: Daníel Jónsson
Höfundur tónlistar: Jóhann G Jóhannsson
Leikmynd: Þorsteinn Gíslason
Búningar: Anna Bryndís
Ljós: Benedikt Axelsson og Fannar Geir Ásgeirsson
Tónlistarstjórn: Sigríður Arnardóttir og Brynjólfur Brynjólfsson.

Að mínu mati er eitt af hlutverkum áhugaleikhússins að gefa fólki kost á að taka þátt í gefandi félagsstarfi. Hlutverkin í leikhúsinu eru fjölbreytt hvort sem að þú vilt láta ljós þitt skína á sviðinu eða baksviðs, allt saman skiptir þetta miklu máli til að góður árangur náist. Í nútímaþjóðfélagi er afþreyingarsamkeppnin mikil og í mörgum tilfellum verður æ erfiðara að fá fólk til að sinna sjálfboðaliða og félagsstarfi. En það er alveg morgunljóst að hjá Freyvangsleikhúsinu er það ekki vandamál enda um eitt öflugasta og metnaðarfyllsta áhugaleikfélag landsins að ræða. Þar er að finna mikið af kraftmiklu og hæfileikaríku fólki og orkan flæðir upp um alla veggi.

Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson er bráðskemmtilegt og líflegt barnaleikrit með boðskap. Til að skapa hinn einstaka leikhúsgaldur þarf allt að ganga upp og það er sannarlega að gerast á fjölum Freyvangsleikhússins. Leikur, leikmynd, lýsing, hljóð, tónlist, búningar og öll umgjörð er til mikillar fyrirmyndar.

Það hefur tekist mjög vel til við að manna verkið og eru flestir eins og sniðnir í hlutverkin kannski hafa þeir hoppað beint upp úr Skilaboðaskjóðunni. Það er erfitt að taka einhverja út úr sterkum leikhópnum en til að nefna einhverja, minnist ég t.d. á dvergana, Rauðhettu og úlfinn. Skógardýrin voru vel æfð, danspor og hreyfingar óaðfinnanlegar,. Þau ljá sýningu góðan blæ og eru frábær í söngatriðunum og skýrmælt.

Ég ólst upp við ákveðna tegund af leikmynd ef svo er hægt að segja. Leikmyndir sem var mikið nostrað við, hlýjar, mikið málaðar og þær voru eins og ævintýri sem þú dast hreinlega inn í. Oft í seinni tíð hef ég saknað slíkra leikmynda…en þarna var hún komin, falleg og full af lífi, öll smátriðin alveg yndisleg. Að sjálfsögðu bætir góð og fagmannleg lýsing við leikmyndina enda eiga þessir þættir að vinna saman.

Ég lagði mig sérstaklega fram við að skoða búningana, þar vil ég hafa samræmi og flæði við hæfi sem hjálpar og styður við verkið. Það var ekki hægt að sjá neitt sem truflaði þar, það er með þetta eins og annað í verkinu það hefur verið vandað til verks.

Þátttaka áhorfenda í salnum á þessari sýningu var mjög góð og mikið var fagnað í lok sýningarinnar. Þau börn sem voru með mér voru himinlifandi ánægð og skemmtu sér konunglega. Við ræddum málin á leiðinni heim og ég spurði þau hver þeim hefði fundist skemmtilegastur eða leika best og niðurstaðan var algjörlega í takt við sýninguna tvö af þremur börnum sögðu “allir”. Þriðja barnið nefndi Skemil uppfinningadverg. Svo báðu þau mig að nefna einhvern, mér þótti það erfitt en hugsanlega er úlfurinn þess verður að minnst sé á. Leikurinn er mjög góður og söngurinn ekki síðri. Leikstjórinn hefur augljóslega ekki kastað til höndunum, hann hefur hugsað hvert smáatriði vel og vandað til verks. Sýningin er vel æfð, staðsetningar og innkomur háréttar og flæðið gott, aldrei dauður punktur.

Það er aðeins eitt sem ég er ekki ánægður með en það er myndin eða hönnunin á forsíðu á ágætri leikskrá verksins.

Ég tók eftir því í leikhléi að í sjoppunni voru til sölu heimagerðar skjóður sem voru seldar með góðgæti í. Skjóðurnar voru samvinnuverkefni góðra aðila t.d. var hver skjóða með teiknaðri mynd. Þetta er eitt af smátriðunum sem sýna mér að í Freyvangsleikhúsinu eru allir á tánum og verkefnið tekið alla leið.

Ég spái því að þessir snillingar sem að þessu verki standa eigi eftir að sýna Skilaboðaskjóðuna oft og mörgum sinnum og það er klárlega hægt að mæla með fjölskylduferð í Freyvang.

Takk fyrir mig og mína og til hamingju aðstandendur og allir í Eyjafjarðarsveit.

Júlíus Júlíusson


Chia Smoothie. Klárlega fyrir þig !

Enska síðan mín hér. Joyandfood - Þessi uppskrift á ensku HÉR

Chia Smoothie – Klárlega fyrir þig !
Ég fæ mér smoothie á hverjum morgni og reyni að hafa þá fjölbreytta. Oftast geri ég bara eftir hendinni og þá fer það eftir því hvað er til hverju sinni. Það kemur fyrir að ég skrifi uppskriftirnar niður þegar mér hefur tekist vel til. Það er frábært að byrja daginn á svona heilsusamlegum orkubombum. Svona drykkur stendur með manni langt fram undir hádegi.
iStock_000018872168XSmall
Chia Smoothie.
Fyrir tvo.
Innihald:
6-8 Brasilíuhnetur eða handfylli af  Cashewhnetum
1 kiwi
½ banana
1 lítið vel þroskað avocado
2 msk Chia fræ
2 msk sítrónusafi
1 msk agavesíróp
3 - 400 ml möndlumjólk
3-5 ísmolar
Allt sett í blandara ,bætið meiri möndlumjólk við ef ykkur finnst drykkurinn of þykkur.Morgunmatur/drykkur fyrir tvo. Hann er ríkur af trefjum, próteini, A, C og E vítamínum, kalki og hollri fitu. Hann er kalk og prótein og vítamínríkur.


Möndlumjólk uppskrift.
100 gr heilar möndlur, afhýddar
200 ml vatn og fjórir klakamolar

Möndlurnar fara í blandarann ásamt klakamolunum. Láttu blandarann ganga þar til allt er orðið vel smoothie. Það er líka hægt að kaupa möndlumjólk í heilsubúðum/hornum.

Hér kemur örlítill fróðleikur um Chia fræ og Avacado.

Chia fræ
Chia fræ eru ótrúlega rík af næringarefnum og teljast til ofurfæðu.  Þau eru talin hafa verið mikilvægur hluti af fæðu Maya og Azteca. Chia fræin eru  próteinrík og innihalda allt að 30 gr af próteini í hverjum 100 gr sem er meira en er að finna í kjúklingabringu eða lambalæri! Það er frábært að nota þau í smoothies. Fræin eru mjög rík af kalki, járni, magnesíum og fosfór og eru einnig stútfull af trefjum. Chia fræin eru rík af nauðsynlegum omega 3 og omega 6 fitusýrum. Chia fræ eru rík af andoxunarefnum og stuðla því að heilbrigði hverrar einustu frumu líkamans. Chia fræin eru  blóðsykursjafnandi sökum hás innihalds  próteins, trefja og fitusýra og stuðla því að betra blóðsykursjafnvægi. 

 iStock_000014807979XSmall

Avacado
Að frátaldri ólivunni þá er avocado ávöxturinn með hæsta hlutfall allra ávaxta af einómettuðum fitusýrum eða um 20%. Þetta er um tuttugufalt magn á við aðra ávexti. Avocado inniheldur einnig mikið magn trefja. Það er stútfullt af A-vítamíni, B-vítamínum sérstaklega fólínsýru, kröftugra andoxunarefna eins og C, og E vítamína, kalki, járni, kalíum og fleira. Vegna fullkomrar samsetningar auðmeltanlegra kolvetna og próteina þá er avocado kjörin fæða fyrir smoothies. Þroskað, óeldað avocado er stútfullt af lifandi ensímum og auðmeltanlegum próteinum og kolvetnum. Þessir kostir gera það að verkum að avocado er efst á lista yfir auðmeltanlegustu fæðutegundirnar sem að innihalda svo hátt magn próteina og fitusýra. Hvernig velur maður Avacado í búðinni ? Oft kemur maður heim með þrjú stykki  en getur síðan kannski bara notað eitt. Ég mæli með því að velja ekki mjúkan ávöxt heldur skal velja grjótharðan. Ávöxturinn er einstaklega viðkvæmur fyrir hitabreytingum og þar sem eru oft miklar hitabreytingar í matvörubúðum. Betra er að hann þroskist jafnt á eldhúsbekknum hjá okkur frekar en að hann misþroskast í búðinni. Gott era ð kaupa hann harðan og láta hann standa á eldhúsbekknum í 3-4 daga og setja hann síðan inn í ísskáp og þar endist ávöxturinn nokkuð lengi og er alltaf á réttu þroskastigi. En ef vilt þú láta avacadoið þroskast hratt geturðu sett það í bréfpoka með epli eða banana í 24 klst og loka pokanum vel.


Júlíus Júlíusson




Feykiholl kjúklinga og grænmetis súpa

Enska síðan mín JoyAndFood.com Þessi uppskrift á ensku er þar. 

Feykiholl kjúklinga og grænmetis súpa  Þessi súpa sem ég var að búa til er holl og góð. Stútfull af öllu því sem okkur vantar J
Ferskt og lífrænt hráefni að mestu. Gaman væri að heyra frá einhverjum sem leggur í að prófa hana.  Frábær til að frysta í góðum boxum til að grípa í sem nesti eða ef  þig vantar eitthvað fljótlegt. Passleg uppskrift fyrir stórfjölskylduna.
 100_1022 Hráefni: Fyrir 6 – 10 persónur 

1 heill kjúklingur úrbeinaður og skinnhreinsaður. Eða 6 kjúklingabringur.

1 – 2 laukar
1 hnúðkál
6 – 8 gulrætur
½ fennel
1 sæt kartafla
1 bolli bygg frá Vallarnesi.

4 – 6 tómatar
4 hvítlauksrif
5 greinar garðablóðberg
½ - 1 chillipipar rauður.
1 grein rósmarin2 x 2 cm engiferrót

safi úr ½ sítrónu
rifinn börkur af sítrónu eftir smekk allt að ¼ hluta.
2 x ½ dósir organic kókosmjólk Biona eða Rapunzel
1 x ½ dósskornir og flysjaðir tómatar með basiliku. Biona Organic.
2 x ½ dósir af vatni – Upplagt að skola tómata og kókosmjólkurdósirnar.
1  ½ - 2 matskeiðar turmerik – Organic frá Sonnentor
1 matskeið Garam masala –Organic frá Sonnentor
3 matskeiðar + Glutenfree Tamari sósa.
svartur eða grænn pipar mulinn.
salt
½ paprika.

ATH: Í raun eru öll kryddin viðmið, smakkið og stjórnið þessu sjálf. Það er líka gott að bæta karrýi við kryddin.

Sjá allt hráefni á mynd að ofan.
100_1053

Kjúklingurinn léttsteikur eða brúnaður á pönnu og settur til hliðar. Laukur, hnúðkál, gulrætur, fennel og sæt kartafla: Skorið í bita eða teninga og sett í pott ásamt bygginu, olíu og kryddað með pipar. Þetta er steikt um stund, rétt til að leyfa olíunni að mýkja hráefnið.
Tómatar,hvítlauksrif, garðablóðberg, chillipipar, rósmarin og engifer sett í matvinnsluvél og unnið þar til að allt er smoothie, og þá er þessu skellt í pottinn með rótargrænmetinu.
Sítrónusafi, börkur,kókosmjólk ,dósatómatar,vatn einnig sett í pottinn suðan látin koma upp og látið malla í 20 mínútur. Þá kemur kjúklingurinn í pottinn og súpan krydduð eftir smekk. Látin malla um stund og að lokum er paprikan sett útí og látið malla áfram um stund.

Suðutíminn er um 60 – 80 mínútur. Lengur ef menn vilja bragðsterkari súpu og láta hana sjóða meira niður. Það er gott að láta hana bíða um stund í pottinum áður en að hún er borin fram.

Verði ykkur að góðu. Vonandi líkar ykkur þessi uppskrift.  Deilið eða linkið að vild hvort heldur sem er enska síðan eða þessi.

Júlíus Júlíusson   

Ný uppskrift.! Hollt og gott rasp á Fisk eða kjúlla.

Hér er þessi og fleiri uppskriftir á ensku - Lítið á :) Nýtt rasp ! Hollt og gott rasp á Fisk eða kjúlla.... einföld og góð uppskrift. Það er alltaf gott að fá fisk með raspi. Ef við viljum fá heilsusamlegt rasp þá er úrvalið í verslunum ekki mjög mikið....

Af hverju er ekki bara nóg fyrir okkur að hafa bara nóg. ?

Facebook status hjá Heimi Karlssyni á Bylgjunni varð kveikjan af þessari grein eða vangaveltum mínum. Hér er þetta hrátt og beint af kúnni, kryddað með fjórum dæmisögum. Höfum við misst sjónar á því sem skiptir máli ? Ísland hefur uppá ansi margt að...

Dagur með ástinni þinni - Hvernig skal koma á óvart.

Hvernig á að koma á óvart ? Dagur með elskunni. Að koma á óvart. Þegar komið er á óvart skipta leyndin og smátriðin miklu máli. Til að koma virkilega á óvart er mikilvægt að gera eitthvað sem ekki hefur verið gert áður, jafnvel eitthvað sem að elskunni...

Allt gengur betur.....Vertu jákvæður !

Allt gengur betur…….Vertu jákvæð/ur. Með jákvæðni líður þér betur, þú nærð betri árangri og almennt verður andrúmsloftið betra, hvort sem um er að ræða heima hjá þér, í vinnunni í bænum þínum eða í heimun öllum. Það er ekki alltaf auðvelt að...

10 Fiskar - 10 hljómplötur.

Virka Geislavirkir á Plokkfiskinn. Oft þegar ég er að elda mat hlusta ég á tónlist og ef ekki koma oft upp í hugann ákveðin lög eða flytjendur eftir því hvað hráefni ég er að vinna með. Þetta snýst um tímann frá því að ég byrja að handleika hráefnið,...

Næsta síða »

Um bloggið

Matarsíða áhugamannsins

Blogg um mat og drykk í sem víðustum skilningi.

Áhugamaðurinn

Júlíus Garðar Júlíusson
Júlíus  Garðar Júlíusson

Um síðuna

Nýjustu myndir

  • iStock 000014807979XSmall
  • iStock 000019931963XSmall
  • iStock 000018872168XSmall

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Spurt er

Hvað borðar þú fisk oft í viku

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband