Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Lundasalat á flugi......eyjapeyjar á þing....

Lundinn er frábær, Grímseyingar líka ....já og Vestamannaeyingar ekki minni snillingar...kannski ætti að koma slatta af þessu jákvæða, kröftuga og umfram allt skemmtilega fólki á þing...en nóg um það. Lundinn er mjög gott hráefni til eldunar og það er svo sannarlega hægt að elda hann á marga vegu. Í tilefni af komu lundans í Grímsey set ég her inn uppskrift..njótið.

_MG_7288

Hugsið um hvern bita í salatinu sem  gómsætan og vel gerðan munnbita, ég hugsa oft  að ég sé handverksmaður og hver biti sé útskorinn og úthugsaður það á jafnt við um það sem er eldað eða skorið niður.

  4 - 6 vel snyrtar lundabringur
300 gr humar eða skötuselur
1 box jarðaber
1 grein græn vínber
1 bréf beikon
1 bréf El toro nautavöðvi
1 bátur vatnsmelóna
¼ iceberg höfuð
½ gul paprika
1 poki lambasalat
1 bóndabrie - Geitabrie væri spari.. 
¼ poki rucola
¼  krukka fetaostur í kryddlegi frá Mjólku
handfylli af pistasíuhnetum2 ferskjar fíkjur
2 hvítlauksgeirar
Maldon eða annað flögusalt
Teryaki marinade sósa
balsamik síróp
sítrónu eða truffluolía
smjör
hlynsíróp
 Munið að skola grænmeti og ber vel úr köldu vatni. 

Leggið bringurnar í teryaki marinade í 2 tíma. Brúnið þær  báðum megin á pönnu upp úr smjöri, takið strax af og vefjið vel inn í álpappír, látið bíða í 20 mín á eldhúsbekknum. Skerið síðan í þunnar hæfilegar _MG_7266sneiðar og látíð kólna. Stökksteikið beikonið á pönnu og þerrið á eldhúsbréfi, hver sneið fer í 3 – 4 bita, skerið humar eða skötusel í litla bita, pressið hvítlaukinn á pönnu með smjöri og aðeins af flögusalti, veltið fisknum upp úr þessu í 1 mín, takið af og kælið, skerið bóndabrie í passlegar lengjur og rúllið El toro nautavöðvanum utan um og skerið í 2 bita, skerið vínberin og jarðaberin í tvo til 3 bita eftir stærð berjanna, skerið vatnsmelónubitana í jafn stóra bita, skerið paprikuna langsum í hæfilega bita. Hitið pönnu og látíð handfylli af pistasíuhnetum á pönnu og ristið, takið af og setjið á disk og hellið hlynsírópi yfir, kælið.

Veljið fallega stóra aflanga skál eða fat, hafið allt hráefnið tilbúið fyrir framan ykkur og byrjið að raða smekklega á. Það má segja að þetta séu 3 lög af hráefni. Geymið fallegustu bitana til að hafa efst. Inn á milli má dreipa aðeins af sítrónu eða trufflu olíunni, en alls ekki of mikið sama má segja um hnífsodd af Maldon salti svona einu sinni og að lokum setjið nokkra dropa af balsamik sírópi efst. Þegar þið setjið fetaost dreipið þá aðeins af olíunni með. Skerið fíkjurnar og setjið efst eða í hornin til skreytingar.


mbl.is Lundinn kominn í Grímsey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Camembert með beikoni og grískri jógurt

100_3154Seinni partinn í gær er líða fór að kvöldmat og hungrið farið að sverfa að og enginn heima nema ég, börnin á skíða og fótboltaæfingu og heimilismenn að koma á mismunandi tímum heim. Ég nennti ekki að fara búa til kvöldmat í þeim skilningi...ég opnaði ísskápinn og sá beikon, Camembert ost, gríska jógurt og afgang frá deginum áður af grjónagraut. Þannig að ég ákvað að búa til eitthvað sem við hjónin gætum nartað í og eitthvað pínu djúsi sem myndi ná tökum á 100_3157hungrinu og löngun í eitthvað svert og grjónagrauturinn myndi seðja og gleðja börnin. Ég hitaði ofninn í 180 gráður, skellti ostinum í heilu lagi á eldfast fat, dassaði góðri ólífuolíu, salti og pipar yfir hann, reif svo nokkrar greinar af thymian yfir. Steikti nokkrar beikonsneiðar, mín reynsla er sú að  láta aldrei olíu eða feiti á pönnu áður en þið steikið beikon, ég þerraði beikonið á eldhúspappír og klippti það síðan niður og raðaði því meðfram ostinum og inn í ofn í 10 - 12 mín þar til að ilmurinn af thymianinu í bland við beikonið er farið að erta þig fremst á nefbroddinum. 2 - 3 góðar matskeiðar af grísku jógúrtinni í skál og jurtahunangi með 100_3160fjallagrösum, fíflum, ætihvönn og engiferrót..mmmmm, skar niður smábrauð sem ég var búinn að setja í ofninn áður en osturinn fór inn reif örlítið af parmesanosti yfir það og síðan borðuðum við þetta með ísköldu kranavatni og dýfðum brauðinu í ostinn sem lak fallega út yfir beikonið er ég stakk í hann og ekki var nú verra að dýfa brauðinu í jógúrtið annaðhvort eitt og sér eða allt í bland...mmmmm

Heill......og fallegur Humar...

100_2103 

 

 

 

 

 

 

 

 

Rétt fyrir jólin áskotnuðust mér  heilir humrar. Ég hef aldrei eldað þá svona heila. Þeir voru frosnir í frauðkassa, ég setti þá i kistuna og var eiginlega friðlaus þar til að mér fannst vera komið tilefni til að elda þá. ...en tilefnið kom og góðir vinir komu í mat. Í forrétt var sushi,  bleikja, túnfiskur, humar, léttsaltaður 100_2104þorskur, paprika, gúrka, nori blöð, blönduð sesamfræ og að sjálfsögðu Kikkoman sojasósa, sultaður engifer og wasapi. Í rétt númer tvö var léttsaltaður þorskhnakki, með bakaðri kartöflu, fiskurinn með tómötum, basilku100_2112 og furuhnetum. En aftur að humrinum, ég setti vatn í stóru pönnuna mína og lét suðuna koma upp, kreysti sítrónusafa útí , Maldon salt eftir smekk , örlítið esdragon, lét sjóða í tvær mín, síðan fór humarinn úti í 2 - 3 mín og borinn fram með sítrónu. Það var mjög gaman að borða humarinn og bjástra við hann og sjúga og naga hvern einasta krók og kima, hann var mjög góður...100_2109


Örlítið um páskamatinn og ný matarsíða

Páskarnir hafa verið nýttir til að gera ýmislegt sem hefur staðið til en ekki orðið af sökum anna...eða leti og þess á milli höfum við borðað og borðað. Ég stofnaði síðu á Facebook sem heitir Matarsíða áhugamannsins og þar er ég búinn að setja inn á annaðhundrað matarmyndir, tengla í síður og lista yfir matarviðburði og margt fleira. Það er ljóst að það er mikill áhugi fyrir mat og matartengdu efni, því að á einum og hálfum sólarhring eru komnir um 1300 aðdáendur, það er hægt að slá inn Matarsíða áhugamannsins í leitina á Facebook til að komast á síðuna. Páskarnir eru tími sem er alltaf vel nýttur til þess að borða með vinum og fjölskyldu, flestir matartímar á þeim nótunum. Á föstudagsins langa kvöld vorum við hjá vinum okkar Palla, Auði og stelpunum afar ljúft enda eru þau höbbðingjar heim að sækja og sósugerðarlistamenn. Í forrétt humar og hvítt með, síðan kom páskalambið, gott meðlæti og rautt með, í eftirrétt, súkkulaðikaka ala Auður og koníak, þetta var hin fullkomna máltíð en samt ekki síðasta kvöldmáltíðin, því miður gleymdi ég myndavélinni heimaFrown. Á laugardagskvöldinu var okkur boðið í mat til vina okkar Guðmundar og 100_3082Helgu í Skógarhólunum. Fyrst fékk barnaskarinn (10) að borða kjúkling og franskar....sem rann afar ljúflega niður hjá þeim já og í miklu magni.... hjá flestumTounge Síðan100_3097s ettumst við stóra fólkið til borðs. Í matinn var steinasteik eða nautalund af bestu gerð. Kjötið kom frá fjölskyldu Helgu úr Eyjafjarðarsveit, eflaust vel nuddað, örugglega vel um hugsað og fæðið úr úrvalshaga. En allavegana var það mjög gott og gaman að sitja í góðum félagsskap með þeim Helgu, Guðmundi, Alla og Friðrikku Jóhönnu 100_3098og steikja á steininum, hver sína fullkomnu steikingu. Meðlætið var salat, sósa og hið ótrúlega kartöflugratín sem engum tekst að búa til eins vel nema þeim hjónum, fyrir utan eitt skipti er Helga var með einhverjar tilraunir um ný gsm..eða msg laus krydd...ussususs "aldrei að breyta vinningsliði" sagði einhver spekingurinn einhvern tímann. Með þessu buðu þau okkur uppá mjög gott rauðvín sem húsbóndinn fann í fórum sínum við tiltektWink Carmen 2004, Syrah, Cabernet Sauvignon. Vínið hæfði nautinu vel, hóflega berjaríkt, leður, og eftirbragðið sem entist vel.... minnti á vorið.100_3114
Í eftir mat var ís og niðursoðnar perur uppá gamla mátann minnti mig á mína páska í æsku, rétturinn var borinn fram í gömlu stelli sem að amma hennar Helgu átti og passaði fullkomlega við réttinn. Í gærkvöldi hittumst við stórfjölskyldan 23 stk. samtals hjá Val bróður mínum í Svarfaðarbrautinni, þarna voru samankomin öll börn og barnabörn og barnabarn mömmu og pabba, nema Dagný hálfsystir og Ása, Gummi og strákarnir sem fluttu til Danmerkur á s.l sumri en þau voru með í Web cam...ótrúleg þessi tækni. Mamma varð 75 ára 17. mars s.l og fyrir utan að vera páskamáltíð þá var þe100_3131tta óvænt afmælisveisla fyrir hana. Við færðum henni digital myndavél að gjöf sem hún ljómaði með. Við eldum matinn saman að mestu leiti. Við Gréta komum með kjúklingapottrétt, sjá grænmetið sem í hann fór hér til hliðar, að auki appelsínu trópi, rjómi, vatn, Indverskt krydd, kórianderfræ, curry paste, rifsberjahlaup, rjómaostur og kjúklingurinn að sjálfsögðu, Sesamkartöflurétt sem ég hef áður gert og sagt frá hér á blogginu, í honum eru teningaskornar venjulega100_3136r og sætarkartöflur, salt. pipar, sesamfræ, olía og agavesíróp. Læri sem ég eldaði undir áhrifum frá Indlandi og Marokkó þ.e.a.s krydd og aðferð. Ég þarf að setja þessa uppskrift almennilega niður á blað og setja hana hér inn síðar. í grófum dráttum er lærið látíð þiðna og bíða í ísskáp 3 - 4 daga, skorið í það nokkrar þversum rákir, mixaðri blöndu af laukum, lime safa og kryddum borið á það og lærið sett í filmu og sett í sólarhring í ísskáp, áður en það er sett í ofn er filman tekin og önnur mixuð blanda smurð utan á, í henni er grísk jógurt, 100_3135ferskar döðlur, hnetur, lime safi og hunang. Lærið sett í ofn í 2 tíma á 160 með lok eða álpappír á og í restina er lokið tekið af í 10 - 20 mín eða þar til að húðin er orðin örlítið cryspí. Munið að láta lærið bíða í smá stund áður en það er skorið, með lærinu bárum við bæði fram sigtað soð og kalda sósu sem í var grísk jógúrt, gúrka,rifið múskat, lime safi og kókosmjöl, þessi sósa passaði einnig mjög vel með léttsöltuðum saltfisksporðum sem bróðir minn var með , fiskurinn var steiktur upp úr kókosmjöli, mjög góður. 100_3134Meðlæti, ferskt salat, hrísgrjón, cous cous og ofangreindur kartöfluréttur. Ís, terta, skyrterta, berjasósa og súkkulaðisósa í eftirrétt. Það var allt étið upp til agna...sem er þekkt þegar þetta fólk kemur saman.Smile Þess má geta að Gummi bróðir þessi í Danmörku grillaði íslenskt læri á stuttuxunum í garðinum hjá sér á meðan.


Aðventuboðsfærsla á deginum langa....loksins

Er að setja inn gamlar syndir, þ.e.a.s færslur sem ég ætlaði að vera búinn að koma inn en það hefur ekki gefist tími til þess fyrr en nú, enda nógur tími í dag. Í nokkur ár höfum við hjónin boðið Tuffum 100_1400og Bryndlum í matarboð í byrjun aðventu. Tuffur eru meðlimir í saumaklúbbi konunnar og Bryndlar eiginmennirnir, klúbburinn á mikið af börnum eða hátt í 30 og kannski skýrir það nafn eiginmannanna.Whistling Þessi hefð hófst þegar eitt árið var ég með mikið af afgöngum og þurfti einhverja til að hjálpa til við þá. Fljótlega fórum við að hafa eitt óvænt atriði og í ár kom kom Matti Matt og Beggi og sungu fyrir okkur....sem var snilld. Að þessu sinni voru réttir sem við tengdum við 15 - 17 lönd, nokkurskonar matarferðalag. Byrjuðum á forréttahlaðborði en á undan því fengu allir staup af aðalbláberjalíkjör sem við bjuggum til , berin komu úr Böggvisstaðafjalli og vodkinn frá Rússlandi og einnig fékk hvert par ein krukku af Jólarauðlaukssultu Júlla ...sjá færslu hér á blogginu síðan í desember.
100_1409
Íran: Jógúrtsósa/ídýfa og mismunandi brauðu dýft í...mjög gott og kom á óvart.
100_1394
Ítalía:Tígrisrækjur í sweet chilli

100_1399
Ítalía: Brauðteningar með heimagerðu sítrónusmjöri....hrrrriiikkalega gott

saltfiskur

Ísland/Dalvík: Ristað súpubrauð með rauðlaukssultu, spínati og saltfisk
kjullalifur 
Frakkland:Smjördeigsbollar með kjúklingaliframousse

100_1383
Holland - Austurríki - Bretland - Frakkland
Ostabakki með marinerðum ólífum og pepperonibitum, kl 18.00 Reypenaer frá Hollandi, kl 15.00 Applewood frá Bretlandi, kl 12.00 Raklett frá Austurríki og í litlu plastskeiðunum Braesse blue frá Frakklandi.

Oftantaldir réttir voru á miðju borðsins sem allir sátu við, skemmtilegt að sitja og spjalla yfir svona réttum og enginn þarf að standa upp. En næstu réttir voru á hlaðborði á eyjunni hjá okkur. Auk réttanna sem koma hér á myndum á eftir var grískt salat, kínversk hrísgrjónSmile og rauðvín frá Chile.

Purusteik
Danmörk:Purusteik


kjuklingur
Indland: Kjúklingapottréttur


 læri 1
Marokkó: Lambalæri, hér er lærið áður en það fór inn í ofn í 5 tíma......

Lambalæri
...og hér er það komið á borðið

100_1392
Svarfaðardalur:Villibráðarhringur/paté með bláberjum. Lambaafurðir og handtíndar jurtir og ber úr Svarfaðardal og Böggvisstaðafjalli

Spánn: Saltfiskréttur...en því miður þá finn ég ekki myndina af saltfisknumCrying

Eftir þessa rétti fór ég með strákana fram í bílskúr og þar bauð ég uppá bjór og tvíreykta geitakjöt sem allir þaðu og þótti gott og síðan reykt, hrátt selkjöt sem þótti ekki eins gott...en var samt gott. Gréta bauð konunum uppá líkjör inni í stofu. Er inn var komið var aftur sest til borðs og þá var kaffi og tvær dýrindis hnallþórur frá henni Grétu minni.
100_1387

Jæja þá er þetta komið inn loksins...gleðileg jól..ég meina páska....og vonandi sem allra fyrst gleðilegt sumar.


Skírdags kryddbrauðrasp

100_3068Í vetur hef ég safnað öllum brauðafgöngum, þurrkað þá brytjað niður og gefið fuglunum. Nú er þeir hættir að koma. Ég er ekki hrifinn af því að henda hráefni og því tók ég mig til og gerði tilraunir með brauðkryddrasp úr því brauði sem ég var búinn að safna upp. Ég skar brauðið, sem voru venjulegar brauðsneiðar, súpubrauð, endar og skorpur niður í litla bita og setti í ofnskúffu á 160 gráður í c.a 30 - 100_306440 mín eða þar til að brauðbitarnir voru orðnir vel þurrir, eins og harðar tvíbökur. Lét þá kólna og setti í matvinnsluvél og sigtaði með hæfilega grófu sigti í skál. Þarna var ég kominn með um 500 gr af fínu brauðraspi. Ég setti síðan eina matskeið af corianderfræjum,  2 tsk miðjarðarhafsalti frá www.altunga.is sem er salt með rósmarín, majoran, timian og oregano, ásamt c.a tsk af þurrkuðum ísl kryddjurtum í matvinnsluvélina og lét það malla í 2 100_3061mín og setti síðan raspið úti og lét malla um stund. Ilmurinn af raspinu var virkilega góður. Stundum eftir að maður hefur lagað til í skápnum hjá sér þá kemur kannski ljós ýmsir afgangar í pakka eða poka t.d  kex eða  bruður sem er einnig upplagt að nota með í svona kryddrasp. Ég bíð spenntur eftir að nota það á fisk, t.d rauðsprettu eða steinbít, utan á eða í fiski eða kjötsmábollur, á snitzel, kjúklingabringur eða bara það sem hverjum og einum dettur í hug. Það er gott að nýta vel hráefni með þessum hætti jafnt afganga af brauði og kexi sem og kryddi. Þegar þú gerir þinn eigin kryddrasp eru möguleikarnir með kryddtegundur og magn óteljandi.

Súpuskálar..smokkfiskur..sushi..saltfiskur og saumó

Það eru nokkrar eldri matarfærslur sem hafa beðið á miða hjá mér....er að reyna að mjatla þeim inn þessa dagana, hér kemur ein í fimm liðum. Minni á að það er hægt að klikka á myndirnar til að sjá þær aðeins stærri.

Súpuskálar sleif sleif sleif sleif
Sigga og Bjössi í Stjörnu100_2864nni glergallerýi www.stjarnan.neteru að koma með nýja súpudiska á markað, diska sem passa við ferkantaða Kglers stellið (Sjá diskana í saltfiskgreininni hér í sömu færslu) frá Þeim. Sigga bað okkur um að prófa diskana áður en lengra væri haldið Smile og að sjálfsögðu var orðið við því með bros á vör alltaf gaman af einhverju svona.  Ég bjó til fiskisúpu og bauð vinum í súpu og Gréta bakaði dýrindis Focaccia brauð með.  Diskarnir komu verulega á óvart, ég var ekki viss um að það væ100_3043ri þægilegt að borða úr þeim, en það kom heldur betur annað á daginn, það var mjög gott og gaman að borða af diskum með þessu lagi og ég get ekki annað en gefið þeim 4 sleifar. (Sjá sleifagjöf áhugamannsins hér til hliðar á vefnum)
 
Smokkfiskur
Siggi á móti er sjómaður á togara frá Ólafsfirði, hann er mikill öðlingspiltur og kemur stundum færandi hendi með dýrindis hráefni. Fyrr í vetur færði100_2133hann mér dágóðan sendingu af heilum óhreinsuðum smokkfiski. virkilega gott hráefni. Ég var í 9 klst að hreinsa, skera og pakka...það var gaman að fást við þennan skondna fisk og sjá góðgæti bætast í kistuna í mismunandi pakkningum, í súpu hringlótt og bitar,  í rétti lengjur og bitar, og í sushi.  

Sushi
Sushi er magnað fyrirbæri, fyrst þegar ég sma100_2141kkaði það var ég ekki hrifinn en smátt og smátt verður maður heltekinn, sérstaklega þegar maður aflar sé upplýsinga um Sushi, bæði söguna og einnig hvernig og með hverju maður snæðir sushiið. Að búa til sushi er líka skemmtilegt og nærandi, svo ekki sé nú minnst á hvað þetta er 100_2142holltTounge Ég á örugglega eftir að blogga um Sushi tilraunir mínar og vangaveltur, set hér inn myndir af sushi bitum sem ég hef verið að æfa mig í að búa til.

Saltfiskur
Deili með ykkur örlítilli uppskrift/hugmynd af sunnudagssaltfiski. Ég átti tvo verulega góða bita af útvatnaðri Lomos saltfisksteik í ísskápnum einn sunnudaginn og afar spennandi hæfilega kælt hvítvín sem að við100_2965fengum að gjöf frá Halla kokki og Þóru hans fyrir stuttu. Ég skar fiskinn niður í frekar litla bita, blandaði saman hveiti, örlitið af rifnum parmezanosti, cummin, coriander, papriku og smá af svörtum pipar úr kvörn, setti þessa blöndu í plastpoka og fiskinn með og velti honum vel upp úr blöndunni. Steikti fiskinn upp úr smjöri á hita sem myndi kallast yfir meðallagi í ekki svo langan tíma, setti á disk undir álpappír í 5 - 8 mín. Sauð hrísgrjón samkvæmt leiðbeiningumWink skar, kartöflur, gulrætur og sætarkartöflur í litla teninga og lét malla á pönnu þar til að þetta var orðið mjúkt...aðein100_3052s salt og pipar. Þegar grjónin voru klár blandaði ég rótargrænmetinu saman við, setti blönduna á disk, fiskbitarnir ofan á, dassi af rifnum parmezanosti og sitrónuolífuolíu yfir. Með var súpubrauð sem ég skar í tvennt og setti góðar sneiðar af Mozarella osti ofan á og pipraði létt, í ofn í 5 mín eða svo. Hvítvínið sem var hæfilega kælt var franskt frá 2001, Trimbach, Pinot gris....afar gott og eftirminnilegt.

Saumó.
Eins og gefur að skilja er konan mín í snilldar saumaklúbbi. Stundum þegar klúbbfundur er hjá okkur/henni bið ég fallega um að fá að sjá um það sem á að láta ofan í sig við saumaskapinnSmileÍ síðasta hittingi hér var ég í stuði og gerði nokkra tegundir af smábrauðum/tapas. Ég skar niður baguette brauð og ristaði það 100_2013létt í ofni og kældi. Ég gerði sex tegundir og raðaði á stóra gólfflís. Miðað við myndina hér til hægri þá er innst, brauð með kjúklingalifrakæfu og heimagerðum niðursoðnum rauðbeðum frá mágkonu minni, síðan saltfiskur með rauðlaukssultu og djúpsteiktu roðinu af saltfisknum, þriðja brauðið með ferskum rækjum með kanil og dillsósu og graslauk, síðan kemur púðursykurkonfekttómatar með parmesanosti, næstsíðasta súrsætar rækjur með lauk og að lokum parmaskinka með peru chutney og einhverju ofan á sem ég er búinn að gleyma hvað varSmile


Rússneskar pönnukökur og tengdó kom óvænt í heimsókn

Rakst á uppskrift eldsnemma í morgun af Blinis í helgarblaði fréttablaðsins. Blintz, blintze, blin eða  rússneskar pönnukökur.  Uppskriftin: 75 gr hveiti, 1 tsk lyftiduft, 2 egg, mjólk, salt, smjör/olía. 100_3022Þurrefnin í skál, blandið eggjum útí og síðan mjólk, en deigið á að vera ágætlega þykkt. Smyrjið pönnu og mótið munnbitastóar pönnsur. Það er hægt að nota þessar snilldar pönnsur með hverju sem er. Þekktast er að nota reyktan lax/silung með Blinis. En það er algjörlega hægt að láta hugmyndaflugið ráða og allt leyfilegt í þeim efnum, súrt, ferskt, sætt og svo framvegis. Þægilegt á smáréttahlaðborð, í saumaklúbbinn eða á páska eða fermingarborðin framundan.100_3026 Ég gerði smá tilraunir með þetta svona með því sem var til í ísskápnum Eina tegund með sýrðum rjóma, þurrkuðu dilli og birkireyktum silungi frá Hlíð í Ólafsfirði, eina með gráðosti, fersku timian og balsamikediki, og þriðja með frönskum Port Salut osti og perumauki með fennel. Rétt fyrir hádegið kom svo tengdamamma í óvænta heimsókn, ég var búinn að taka upp úr kistunni smá bita af steinbít og ákvað að bjóða henni uppá léttan fiskirétt og Blinis. Ég sauð góð Paellugrjón , "Callasparra", steikti á pönnu smátt 100_3031skorna sveppi, blaðlauk og spínat og kryddaði vel með Moroccan kryddi frá NOMU (Cumin, turmeric,paprika,chilli and cinnamon) blandaði þessu svo saman við grjónin. Skar steinbítinn í passlegar lengjur, velti honum upp úr Spelt, grófu hveiti, strauk pönnuna með olíu og steikti fiskinn stutt, stráði örlitlu Maldon salti yfir. Bjó til kalda sósu, skar 1/4 bita af gúrku í smáa teninga, ein tsk lime safi, reif múskat yfir og blandaði þetta með góðum bolla af hreinni jógúrt. Ferskt spínat og tómatar flutu með og ísskalt kranavatn....og tengdó ljómar....eins og alltaf.

Eldað fyrir forsetann óvænt.....við sérstakar aðstæður

Þann 26. mars s.l kom Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ásamt fylgdarliði í óvænta stutta heimsókn til Dalvíkur. Ég var beðinn um að elda fyrir hann og gesti  samtals 20 manns í hádeginu..já sæll...ég sagði já um leið og var að sjálfsögðu upp með mér að fá þessa beiðni...skemmtilegt að vera áhugamaður og geta sagst hafa eldað fyrir forsetannGrinCool. Það var stuttur tími til stefnu og það þurfti að huga að matseðli og 100_2922ekki nóg með það heldur einnig með hvað hætti þetta væri gert því það var tekin ákvörðun um að þetta yrði á kaffistofunni í fiskhúsi hér í bæ hjá O. Jakobsson , ekkert dúkað upp eða neitt svoleiðis, bara heimilislegt og sem eðlilegast. Mjög skemmtilegt fyrir utan að það er engin aðstaða til eldunar og engin áhöld eða borðbúnaður, þannig að ég þurfti að hugsa þetta út frá því og einnig tímanum sem hann hafði. Það varð úr að ég ákvað að hafa einn kaldan disk með nokkrum réttum á og vetrarfiskisúpu með brauði og kaffi og konfekt á eftir. Veðrið var ekta norðlenskt þennan dag, hríð úti og snjór á gluggum alveg eins og það á að vera. 100_2907Það var ræs kl 6 og Eiður Máni 9 ára sonur minn var kominn á fætur rétt á eftir mér til að hjálpa, þannig að hann flysjaði gulrætur þar til að hann þurfti að fara í skólann ( Tjáði mér það að hann vildi nú frekar vera heima og elda fyrir forsetann heldur en að fara í skólann). Þar sem að aðstaðan var ekki mikil í fiskhúsinu þurfti ég að elda allt heima og pakka og flytja það þangað. Þar sem við settum köldu réttina á alla diska þurfti pláss til að gera það, inni á lofti í fiskhúsinu er borð sem passaði fyrir alla diskana, þannig að þetta var skemmtilega öðruvísi að búa til mat og setja á diska fyrir forsetann uppi á lofti við íslenskar aðstæður....enda er áríð núna 2009...ekki 2007. 100_2910Þar sem að þetta var að morgni og allir í vinnu var erfitt að finna einhvern til að hjálpa en það hafðist allt saman, Gréta konan mín er kennari og fékk að skjótast í viðverutíma til að aðstoða mig á loftinu góða sem betur fer, en þetta hafðist allt saman þegar gestirnir komu í hús var ég rétt búinn að raða á diskana og nokkrir gestanna gripu diska með sér fram í kaffistofunaSmilemargar hendur vinna létt verk. Helga og Agnes frá O. Jakobsson aðstoðuðu við að leggja á borð og fleira. En að matseðlinum, ég ákvað að hafa hann heimafenginn sem sagt matur úr Dalvíkur100_2916byggð. Lomos saltfisksteik frá Ektafiski á Hauganesi, léttsaltaður saltfiskur frá O. Jakobsson, steinbítur frá Norðurströnd og Dagmanni, þorskur og rækjur í súpuna frá Samherja, rúgbrauð bakaði sameiginleg frænka okkar Ólafs Ragnars, Herborg sem er skyld mér í móðurætt og Ólafi í föðurætt, ég var einnig búin að biðja Önnu Dóru á Klængshóli um að baka fyrir mig fjallagrasabrauð með súpunni en hún lagðist í flensu kvöldið áður, þannig að ég fékk nýbökuð súpubrauð hjá stelpunum í Samkaup. Á kalda diskinum var rúgbrauð með steinbítsplokkfiski með ólífum, dilli og góðri kaldpressaðri ólífuolíu, saltfiskur frá Ektafiski, með sesam og100_2917döðlu rótargrænmeti, léttsaltaði þorskhnakkinn frá O. Jakobsson með ferskum Mozarella, tómötum, basil, hvítlauk og olíu. Saltfiskinn x2 setti ég í stutta stund í ofn, penslaða með olíu og örlítið af svörtum pipar úr kvörn á fiskinn frá Ektafiski. Með var látlaust salat, fetaostur, íssalat, gúrka og paprika. Drykkir:pilsner frá Viking, sítrónutoppur og vatn úr fiskhúskrananum100_2928. Ég gerði nýja útgáfu af uppskriftinni minni úr bókinni "Meistarinn og áhugamaðurinn" Vetrarfiskisúpa Dalvíkingsins, kröftug súpa með bleikju, þorsk og rækju. (Náði ekki nógu góðri mynd af súpudisk, en set eina sem ég tók ofan í pottinn. Forsetinn og gestir voru í skýjunum með þessa hádegisstund á kaffistofu O. Jakobsson og dásömuðu allan matinn, þannig að ég er einnig í skýjunum og meira en það. Þegar allir voru orðnir vel mettir var boðið uppá kaffi og konfekt, ég ákvað að koma ekki með neina bolla heldur nota þær kaffikönnur og bolla sem voru til á staðnum, allir þekkja hvernig þetta er á kaffistofum, vel notaðar könnur og bollar með sál og sögu og nánast engin eins. Ein kannan var merkt Man Utd ég rétti forsetanum hana, því að í skólanum um morguninn höfðu börnin spurt forsetann með hvaða liði hann héldi í enska boltanum og auðvitað heldur hann með rétta liðinuSmile. A100_2936ð lokum færði ég forsetanum áritað eintak af "Meistarinn og áhugamaðurinn" og DVD diskinn um Fiskidaginn mikla sem forsetinn er mjög hrifinn af. Þetta var virkilega skemmtilegt og er öllum sem aðstoðuðu með hráefni, lán á búnaði og fleira hér með þakkað fyrir.


Súkkulaðikaka með reyktri papriku.....og fleira.

Fyrir nokkrum vikum áskotnuðust mér skemmtileg krydd frá Altungu www.altunga.is . Nokkrar gerðir af salti saltaltungasem eru frábær í mat og afar skemmtileg sem gjöf, annaðhvort í gjafakörfu eða bara eitt og sér t.d þegar farið er í mat til góðra vina. Síðan voru 3 gerðir af reyktri papriku, Bitter sweet, sweet og hot. Reykta paprikan er áhugaverð og svolítið skondin, þegar þú opnar dós af paprikunni og lyktar af henni þá ertu ekki alveg viss hvort að þér líki, en þegar þú ferð að nota hana og finna hvað hún er mögnuð, þá verðuru skotinn. Paprikan er frá La Chinata www.lachinata.com. Á heimasíðu Altungu er mælt með því að velta osti upp úr paprikunni, ég prófaði það og ég get tekið undir þeirra hugmynd.

Hér á eftir eru nokkar tilraunir/uppskriftir sem ég gerði með paprikunni....uppskriftir eins og þær koma af kúnni....mér sýnist að möguleikarnir séu ansi margir.reyktpaprika

Flestir eiga uppskrift af góðri fisksisúpu, bætið við hana reyktri sweet papriku eftir smekk, það er svo skemmtilegt að finna mátt reyktu paprikunnar þegar hún er komin í félagsskap með öðru hráefni.

Önnur góð hugmynd, bætið reyktri papriku, tegund eftir smekk útí pizzasósu þegar búin er til grænmetispizza.


Hægeldaðir lambakjötsbitar í ofnpotti með reyktri papriku.

Um 1 kg lambakjötsbitar
2 laukar skornir
8 hvítlauksgeirar smátt skornir
8 gulrætur skornar í stóra bita
6 meðalstórar kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
1 góð msk. hot smoked paprika, hrærð saman við 200 ml af góðri olíu
150 ml. púrtvín
1 msk. sykur
1. búnt steinselja skorin
2 greinar rósmarin, heilar.
Salt og pipar eftir smekk.
 Öllu skellt í ofnpott með loki og hrært vel saman með höndunum (Nuddað). Látið malla í 4 klst. Í 140 gr heitum ofni. Fylgjast með ...ausa. 

Nú er MS búið að setja á markað grískt jógúrt, kominn tími til Jgriskt-jogurt

Köld grísk jógúrtsósa með reyktri bitter sweet papriku.

Frábær með grænmetisréttum, grilluðum kjúklingaspjótum, reyktri ýsu og  pönnusteiktum laxi.

350 gr grísk jógurt
1 meðalstór gúrka, kjarnhreinsuð og smátt skorin
1 msk smátt skorinn ferskur ananas
1 tsk. Bitter sweet La Chineta paprika
1 msk. ferskt timían
Salt og pipar eftir smekk
Kæla vel í ísskáp.
 

Hakkbollur Ritz með sweet reyktri papriku 1 kg nautahakk
1 pk. ritz kex, sett í matvinnsuvél.
1 smátt skorinn eða hakkaður laukur
2 tsk. sweet reykt paprika
150 gr, smátt skornir ferskir sveppir, má hakka
150 gr. smátt skorin rauð paprika, má hakka
Salt og pipar eftir smekk

Öllu hrært saman. Búið til litlar bollur, steikja á pönnu, djúpsteikja eða í ofni í 30 – 40 mín.

Sósa;
1 krukka Heinz chilli sósa
1 krukka rifsberja hlaup.
hitað saman i potti.
Bæði má setja bollurnar út í sósuna eða hafa þær með.
Í sambandi við reyktu paprikuna í þessum rétti prófið ykkur áfram með magn.
 Borið fram með hrísgrjónum og hvítu brauði.

Að lokum ein dulítið klikkuð hugmynd.

Súkkulaðikaka með chilli og reyktri papriku

400 gr suðusúkkulaði
375 gr smjör, súkkulaði og smjör brætt saman
6 egg
500 gr sykur, egg og sykur hrært vel, ekki þeyta
220 gr hveiti
1/2 tsk hot reykt paprika
hnífsoddur chilli duft

Súkkulaði og smjöri + eggjablöndu blandað saman, krydd og hveiti að lokum
Bakað við 180 gr í ca. 40 – 45 mín.

Krem
150 gr suðusúkkulaði
50 gr smjör, súkkulaði og smjör brætt saman.

Kakan látin kólna krem sett yfir. Mæli með mikið af ferskum jarðaberjum og vanilluís og eða rjóma.


Um bloggið

Matarsíða áhugamannsins

Blogg um mat og drykk í sem víðustum skilningi.

Áhugamaðurinn

Júlíus Garðar Júlíusson
Júlíus  Garðar Júlíusson

Um síðuna

Nýjustu myndir

  • iStock 000014807979XSmall
  • iStock 000019931963XSmall
  • iStock 000018872168XSmall

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Spurt er

Hvað borðar þú fisk oft í viku

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband