Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Kynþokki, rokk og ról - Leikfélag Akureyrar þorir !

Kynþokki, rokk og ról - Leikfélag Akureyrar þorir !

Rocky Horror frumsýnt í Hofi föstudagskvöldið 10. september

Höfundur: Richard O´Brien´s. Þýðing: Veturliði Guðnason. Leikstjórn: JónGunnar Þórðarson. Leikmyndahönnun: Pétur Gautur Svavarsson. Búningahönnun:Rannveig Eva Karlsdóttir. Hljóðhönnun/stjórn Gunnar Sigurbjörnsson. Ljósahönnun: Freyr Vilhjálmsson. Tónlistarstjóri: Andrea Gylfadóttir. Dansahöfundur: Steinunn Ketilsdóttir. Gervahönnun: Sunna Björk Hreiðarsdóttir. Hárkollugerð: Kristín Thors.

Tæknileg ráðgjöf: Björn Bergsteinn og Einar Rúnar.

Þetta er mín fyrsta sýning á Rocky Horror þessum fræga og ótrúlega vinsæla söngleik, þó svo að ég þekki tónlistina að einhverju leiti. Ég ætla mér ekki að skrifa um verkið sem var frumsýnt 1973 og hefur m.a verið sýnt um 3000 sinnum á West End. Höfundurin Richard O´Brien var í æsku  mikill áhugamaður um rokk, teiknimyndasögur, hrollvekjur og vísindaskáldskap. Verkið er súrrealískt og showið dásamlega fullkomið. Sýning L.A á Rocky Horror er eins og svert partý sem einhverjir hræðast, eru innst inni spenntir fyrir en enginn vill missa af.

Það er ljóst að það er búið að nostra við litríka, draumkennda og næstum fullkomna búninga, gervi, hárkollur og förðun. Þessir þættir undirstrika rokkshowstemmninguna. Dansarnir, fimleikarnir og lýsingin/ljósashowið fá hæstu einkun og bara það eitt er ástæða til að koma aftur og njóta. Leikmyndin stendur fyrir sínu, einföld en samt ekki. Ég hefði viljað sjá þetta glæsilega 200 fermetra svið notað betur og hafa sviðsmyndina örlítið viðameiri en þykist samt gera mér grein fyrir því að hraðinn, tólin, tæknibrellurnar, fimleikarnir og fleira óvænt sem ég ætla ekki að telja upp hamli því.

Með fullri virðingu fyrir öðrum hópum sem hafa stigið á svið hjá L.A þá ætla ég að leyfa mér að fullyrða að hópurinn í kringum þessa sýningu er einn sá allra kraftmesti. Allir skemmta sér  og leikgleðin er mikil. Það eitt er ástæða til að tryggja sér miða strax, bæði til að missa alls ekki af og einnig til þess að geta farið aftur.

Ég hef það á tilfinningunni að Jón Gunnar Þórðarson frábær leikstjóri hafi gefið sig allan í þessa sýningu og að hann hafi náð að koma til skila mynd sem hann hefur haft í huga í upphafi, mynd af “Showi aldarinnar” Það eru nokkur atriði sem máttu njóta sín betur og hafa kannski með staðsetningar að gera. Ég ég er þess fullviss að þetta skrifast á örlítið frumsýningarstress,  þetta slípast fljótt og leikarar setjast betur í hlutverkin og aðstæður.

Tónlistin í verkinu er í aðalhlutverki, flott, kraftmikil og eftirminnileg. Andrea Gylfadóttir þessi reynslumikli tónlistarmaður sér um tónlistarstjórn og ég get ekki annað en gefið henni “High five” . Hljómsveitina skipa: Árni Heiðar hljómborð og hljómsveitarstjórn, Halli Gulli trommur, Hallgrímur Jónas á gítar og Stefán Daði á bassa. Þeir  eru frábærir og hafa greinilega gaman af þessu verkefni. Þétt spilamennska myndi þetta sennilega kallast á hljómsveitamáli og spilagleðin mikil. L.A hefur á að skipa góðum og  reynslumiklum hljóðmanni Gunnari Sigurbjörnssyni og gerir hann vel og í raun betur heldur en húsið og aðstæður bjóða uppá að sinni. Þó að hljóðið hafi ekki verið fullkomið og ég hefi viljað meiri styrk í sumum lögunum þá skrifa ég það allt saman á fyrstu skrefin í nýju húsi með nýjar græjur.

 

Leikhópurinn er vel samsettur og það er nánast eins og að hver einasti þátttakandi sé sérsniðinn fyrir sitt hlutverk. Þetta eru flottir og kynþokkafullir leikarar/söngvarar sem geraallir mjög vel og sumir betur heldur en hlutverkin bjóða uppá. Danshópurinn/Kórinn er kröftugur og hefur greinilega gaman af hlutunum, syngur vel og leikur listir sem að hrein unun er að horfa á. Hið snúna, eftirsótta og áhugaverða hutverk Frank N Furter er í höndum Magnúsar Jónssonar og á köflum náði hann að gera dásamlega vel og það á bara eftir að verða betra. Eyþór Ingi sem leikur Riff Raff syngur og leikur af svo mikilli snilld að það hálfa væri nóg, í nokkur skipti tók salurinn dýfur yfir frábærum töktum hans. Atli Þór og Jana María sem Brad og Janet er sæt og saklaus að mestu. Þau skila sínu mjög vel og syngja eins og englar,  Jana er frábær og sexy söng/leikkona og Atli kom mér á óvart með sínum söng. Bryndís og Andrea sem Magenta og Columbia eru eins og sniðnar í sín hlutverk sem hafa kannski ekki mikið uppá að bjóða í leik, en söngur þeirra og raddir eru eins og sérpantaðar fyrir “showið” Matti Matt leikur Eddie og er virkilega flottur, syngur og leikur eins og hann hafi aldrei gert annað. Það er eins og að Guðmundur Ólafsson sögumaður hafi fylgt með handritinu að utan, það er bara eins og að hann hafi alltaf verið þarna og aldrei gert neitt annað. Rocky leikur ungur og áhugaverður leikari Hjalti Rúnar Jónsson, flottur á sviði og gaman verður að fylgjast með honum í framtíðinni.

Það er nokkur atriði sem hægt er að setja út á. Flest ef ekki allt skrifa ég á frumsýninguna, örlítils óöryggis gætti á nokkrum stöðum, en allt á það eftir að slípast. Örlítið vantaði uppá að texti væri nógu skýr aðallega þegar sungið var , hugsanlega skrifast það á hljóðnemana sem notaðir eru. Mig grunar að æfingatíminn í Hofi hafi ekki verið nógu langur en eftir nokkra sýningar verður hljómburðurinn í húsinu orðinn enn betri og sýningin farin að rúlla og ég ætla mér að fara aftur og ég hlakka til.


Frumsýningargestir voru afar ánægðir með sýninguna miðað við viðbrögðin í lokin, klappinu, hrópunum, blístrinu og gleðinni ætlaði aldrei að linna.

Til hamingju allir þátttakendur í Rocky Horror, til hamingju L.A, til hamingju María leikhússtjóri í leikhúsinu með stóra hjartað og leikhúsinu sem þorir, til hamingju ágæti áhorfandi þú átt kost að að vera með……drífðu þig á eitt stærsta og kynþokkafyllsta “Show” sem lengi hefur sést …..þig gæti nefnilega langað aftur.

 

P.s. Hof er frábært hús og á eftir að gera meira fyrir norðlenska menningu og mannlíf heldur en jafnvel jákvæðustu menn þorðu að vona. M.a á húsið og starfsemi þess eftir að styrkja menninguna, ferðaþjónustuna, tónlistarlífið og veitingabransann á Akureyri. Þetta fer að sjálfsögðu eftir því hvernig spilað er úr hlutunum. Mikilvægt er að  íbúarnir spili með og þeim sé gefinn kostur á því, þetta er hús fólksins. Það má finna nokkur atriði sem betur mættu fara en sennilega skrifast þau flest á byrjunarörðugleika, hitastig, hljómburður og fleiri tæknilegir hlutir sem að nýtt starfsfólk er að læra á. Ég vil nota tækifærið og óska Akureyringum já og norðlendingum öllum til hamingju með frábært menningarhús. Þó að það sé frábært að sitja í mjög góðum sætum Hofs þá saknaði ég þess að vera ekki að njóta leiklistar í gamla góða samkomuhúsinu, þar er hjarta leiklistar á Akureyri. Rocky Horror er stórt og dýrt verkefni og við erum heppin að fá að njóta slíks góðgætis hér norður við heimskautsbaug. Boltinn er því hjá fólkinu að mæta á og njóta fjölbreytilegra sýninga leikársins.

Takk fyrir mig  -  Júlíus Júlíusson

 

Um bloggið

Matarsíða áhugamannsins

Blogg um mat og drykk í sem víðustum skilningi.

Áhugamaðurinn

Júlíus Garðar Júlíusson
Júlíus  Garðar Júlíusson

Um síðuna

Nýjustu myndir

  • iStock 000014807979XSmall
  • iStock 000019931963XSmall
  • iStock 000018872168XSmall

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Spurt er

Hvað borðar þú fisk oft í viku

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband