"Til að skemmta áhorfandanum heima í stofu"

Ég las blogg Guðbjargar Hildar Kolbeins í morgun og ég er hissa á skrifum hennar um Kastljósþættina um Breiðavíkurmálið. M.a segir hún Fullorðnir menn hafa verið dregnir fram í sviðsljósið til að greina frá skelfilegri lífsreynslu sinni - til að skemmta áhorfandanum heima í stofu."  og hún síðar í greininni  " Fórnarlömb ofbeldis eiga ekki að þurfa að sitja undir spurningum sem byrja á: „Í stuttu máli...“ eða „Að lokum.....“  Það er sannarlega rétt að fórnarlömb EIGA EKKI AÐ ÞURFA að svara spurningum um þessi mál í fjölmiðlum. En þeir hafa verið fórnarlömb í 40 - 50 ár og hafa sennilega aldrei þurft að sitja undir þessum spurningum, manni skilst að þeir hafi enga hjálp fengið, enga áfalla eða sálfræðihjálp sem í dag væri veitt samstundis. Var ekki kominn tími á að opna þessi mál, það er alveg ljóst að þessi fórnarlömb þurfa á hjálp að halda og kannski glittir í einhverja hjálp þó seint sé og allt er það Kastljósinu og umfjöllun þess að þakka. Það virðist vera þannig hér hjá okkur að það þarf hressilega fjölmiðlaumfjöllun til þess að vekja almenning og ráðamenn og þá fer eitthvað að gerast.
Barnaníðingurinn sem "Kompás" afhjúpaði um daginn væri að öllum líkindum frjáls ef Kompás menn hefðu ekki unnið sína vinnu líkt og að engin hefði umræðan verið á Alþingi um Breiðavíkurmálið ef ekki hefði verið fyrir umfjöllunar Kastljóssins. Ég get fullyrt það að mér og mínum var ALLS EKKI SKEMMT með umfjöllun Kastljóssins.


mbl.is Þrengir að barnaníðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

u, mér hefur sjaldan verið jafn lítið skemmt einsog þegar ég horfði á kastljósið í fyrradag, samt er nauðsynlegt að þetta komi fram en vá hvað það var erfitt að horfa á þetta. Það er sjaldan tekið á erfiðum málum í Kastljósinu og yfirhöfuð er rannsóknarfréttamennska sem stingur á kýlum mjög ný á Íslandi - en hún er engu að síður toppur allrar fréttamennsku. Fólk sem lætur sér detta í hug að einhverjum sé skemmt yfir þessu Breiðuvíkurmáli eða að fréttafólk fjalli um svona mál eingöngu til þess að auka áhorf er ekki með öllum  mjalla. Það vantar eitthvað í fólk sem heldur því fram.

halkatla, 7.2.2007 kl. 10:27

2 identicon

Ég held að Guðbjörgu Hildi væri bara hollara að blogga í sand á afskektri strönd fyrir opnu hafi

Gunnar Th. Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 10:37

3 identicon

Ég verð nú að vera aðeins meira sammála henni Guðbjörgu en þið hin. Ekki það að mér fanst þetta þurfa að koma fram og þetta land okkar hlustar ekki á neitt núorðið nema það komi fram á primetime í sjónvarpinu. En er það ekki frekar gallinn? Af hverju þarf fólk að koma fyrir framan alþjóð og lýsa sínum persónulegustu harmleikum til þess að eitthvað sé gert í málinu? Erum við orðin svo pólitísk öll að við gerum ekki neitt nema að allir viti hvað við vorum góð að hjálpa þessum gaur, þessum mönnum sem voru misnotaðir eða konunni sem var barin? Það þykir mér mikið meiri vandi en að fólk skuli spyrja sig af hverju fólk sé dregið í sjónvarpið. Það er náttúrulega ekki dregið þangað, það fer þangað af fúsum og frjálsum vilja vegn þess að það veit það að ráðamenn þjóðar okkar hafa ekki tíma fyrir okkur lengur. Þeir vilja bara atkvæði okkar og svo vilja þeir bara gera það sem þeir vilja í friði nema kanski að ríku vinir þeirra kíki við og fái þá til að henda upp einu álveri fyrir sig. Það er ástæðan fyrir að fólk fer í sjónvarp og segir frá misnotkunum og nauðgunum, af því við verðum að gera það til að bara einhver heyri það. Og því miður er þaðrétt sem hún segir að ykkur var skemmt þó að ykkur fanst þetta ógeðslegt og erfitt að horfa. Þið horfðuð samt og nutuð þess að sjá greyið manninn þjást. Þið hafið væntanlega notað upphrópanir eins og Guð minn góður og viðbjóðslegt og hvað annað og hlátur var hvergi að heyra. Ykkur var samt skemmt svipað og þegar fólk fer og horfir á hrillingsmyndir. Ykkur var skemmt.

Svo hvað ransóknarblaðamennsku varðar þá er hún hreint út sagt ömurleg hér á landi. Ég gæti nefnt mörg dæmi um slíkt en ætla í þetta skiptið að láta duga að taka "mannránsfrétt" stöðvar 2 á framhaldsskólanum að Laugum fyrir. Það var gert gríðarlega mikið mál úr þessu og greyið stelpurnar voru settar upp sem svo algjör fórnarlömb og meira að segja talað um misnotkun og hvaðeina. Þær voru á aldrinum 15-20 ára og voru allar í skólanum. Nú það sem mér þótti hvað mest athugavert er að það skuli hafa verið einhver 15 ára stelpa þarna þar sem það er engin 15 ára nemandi að Laugum enda framhaldsskóli og því enginn nemandi það yngri en 16 ára. Ef Stöð 2 hefði lagt áherslu á þessa ransóknarfréttamennsku sína þá hefðu þeir átt að tala við allavega eina stelpuna og hún hefði þá sagt að þetta hefði allt verið í gríni og að þær hafi haft mjög gaman af þessu og að þær hafi alls ekki hlotið neinn skaða af. Og eftir að allir átta drengirnir höfðu verið reknir úr skólanum, einmitt vegna þess að þetta kom í fjölmiðla, urðu stelpurnar alveg brjálaðar yfir því. Þær vildu hafa strákana áfram þarna, þeir áttu það alls ekki skilið. En af því að stöð 2 fékk veður af þessu þá urðu þeir að sykurhúða þetta aðeins til að auka áhorfið hjá sér og eyðileggja líf þesara drengja vegna þess að þeir voru nógu vitlausir til að svara hrekk sem stepurnar höfðu gertá þeirra kostnað. En það gerist bara annan hvern dag á Laugum samkvæmt fólki sem hefur stundað nám þar og aldrei er kippt sér mikið upp við það.

Nei ransóknarblaðamennska á Íslandi er þá einungis til að auka áhorf og það skiptir engu hver verður fyrir barðinu. Og þið megið þakka fyrir það eins og þið viljið. Ég vona bara að þið séuð nógu gáfuð til að átta ykkur á að þið getið öll lent í þeim alveg eins og þessir drengir.

Ég held að við þyrftum mikið frekar að einbeita okkur að því að koma almennilegum samskiptum milli ráðamanna og þjóðarinnar sem og almennilegri stofnun til að gæta hagsmuna okkar gagnvart öðrum stofnunum sem virðast bara taka að sér vinsælu málin. 

Vonandi að þessi skrif mín hafi skemmt ykkur.

Sigurður J Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 11:58

4 identicon

Ekki get ég lesið þetta og haldið kj.  Mér var ekki skemmt.  Eitthv. hafa skilgreiningar á sögninni: að skemmta, farið á einkennilegt flakk.  Þegar mér er skemmt þá er það eitthv. sem ég hef ánægju af, eins og td. þegar ég vel að taka hressilega hryllingsmynd og horfa á af fúsum og frjálsum vilja.  En ef hún fer yfir strikið þá hætti ég að horfa því þá hefur hún kallað fram vondar tilfinningar en ekki ánægju og skemmtun.  Ég horfði á þessa kastljósþætti með fúsum vilja, en mér var ekki skemmt.  Hjá mannskepnunni fyrirfinnst líka önnur tilfinning sem er forvitni.  Ég horfði á þessa þætti af forvitni um mannlegt eðli.  Hver hefur lent í þessu, hver gerði þessum mönnum þetta og s.fr.v.  Hjá mér komu upp tilfinningar sem kallast vorkunn og reiði.  Í mínu tilfelli og margra annarra var þetta ekki skemmtun og okkur var ekki skemmt.  Það er hægt að kalla þetta afþreyingu ef það þarf að kalla þetta eitthv.  Afþreying er ekki alltaf skemmtileg.  Það er að vissu leyti afþreying að sitja við dánarbeð nákomins ættingja, en flestum er ekki skemmt við það.  Það er ekki hægt að segja að allt sem við gerum sé að einhverju leyti skemmtilegt.  Flest erum við sem betur fer þannig að okkur er ekki skemmt yfir þessum atburðum. Breiðavíkur drengjunum var ekki skemmt í þessum aðstæðum þó þeir hafi horft upp á margt hræðilegt.  Það eru nefninlega til aðrar tilfinningar en bara ánægja og skemmtun.  Ég held það sé líka hollt að ganga ekki alltaf út frá því að verstu eiginleikar mannskepnunnar séu að verki.

Þórey Dögg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 14:42

5 identicon

Ef ég myndi bjóða þér í partý væri ég þá ekki að bjóða þér upp á skemmtun? Ef ég byði þér í mat þá ætti ég að skemmta þér, ekki satt? Sjónvarpið er þarna til að skemmta fólki. Það tekst ekki endilega alltaf en stundum er bara skemmtun ekki skemmtileg. En í þessu tilfelli svalaði sjónvarpið forvitni þinni og framkallaði ýmsar tilfynningar sem ég skal vel trúa að hafi verið mjög neikvæðar. Skemmtun er ekki alltaf hlátur og gleði. Sjónvarpið skemmti ykkur þetta kvöld annars hefðuð þið væntanlega slökkt eða skipt um stöð. Ykkur langaði að sjá þetta. Ég var við sjónvarpið þegar þessi þáttur var sýndur en ég vildi ekki horfa á þetta. Ég meðtók hvað hafði gerst og fann til vorkunar til mannsins en ég kaus frekar að gera annað þar sem mér finnst óþægilegt að horfa á þjáningar annars fólks og ég er alveg jafn reiður og almenningur er yfir þessum ógeðslegu atburðum sem gerðust á Breiðuvík, en ég vill ekki að fjölmiðlar séu að misnota þessa menn líka í hagnaðarskyni. Ég er ekki að þykjast vera betri eða neitt slíkt, en skoðið sjálf ykkur, skoðið hvernig neytendur þið eruð og hættið að láta fjölmiðla mata ykkur af hverju sem þeir vilja. Þið hafið líka skoðanir og raddir, og það sem skiptir mestu, þið hafið val.

Sigurður J Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 20:36

6 identicon

Já, ég sé að við erum í grunninn alveg sammála um allt nema hvernig á að skilgreina orðið " skemmtun".  Fyrir mér er skemmtun skemmtileg en ef mér finnst hún leiðinleg þá flokka ég hana sem afþreyingu.  Já að sjálfsögðu skiptir okkar álit máli og við höfum svo sannarlega val til að velja.  Ég vel og hafna, ég valdi að fylgjast með þessu máli í Kastljósi en hef ekki lesið staf um þetta mál í DV. vegna þess að fyrir löngu ofbauð mér hegðun DV.  Og að sjálfsögðu á sjónvarpið ekki að græða á þessu frekar en DV.  En, DV græddi og sjónvarpið græddi.  Í þessu máli tel ég það réttlætanlegt að þessu sé sjónvarpað og útvarpað til að við hin, sem þekkjum ekki svona hrylling, lokum ekki augunum fyrir þessu.  Þetta gerðist og við verðum að horfast í augu við það, hvort sem það skemmtir okkur eða ekki.  En það er rétt hjá þér að við eigum ekki að láta mata okkur á hverju sem er, við verðum að vinsa úr því sem dælt er yfir okkur. 

Ég vona líka að partýin hjá þér séu skemmtilegri en svo að ég myndi flokka þau sem afþreyingu.

Gaman að hafa skoðanaskipti við hugsandi fólk, takk fyrir mig  

Þórey Dögg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Matarsíða áhugamannsins

Blogg um mat og drykk í sem víðustum skilningi.

Áhugamaðurinn

Júlíus Garðar Júlíusson
Júlíus  Garðar Júlíusson

Um síðuna

Nýjustu myndir

  • iStock 000014807979XSmall
  • iStock 000019931963XSmall
  • iStock 000018872168XSmall

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Spurt er

Hvað borðar þú fisk oft í viku

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband