Rauðspretta, léttsöltuð ýsa og krabbi

100_0488Í gærkvöldi komu tengdó og 2 mágkonur mínar í stelpuheimsókn. Ég vissi af þessu með frekar stuttum fyrirvara en ákvað nú samt að elda eitthvað handa þeim. Ég átti rauðsprettu og léttsaltaða ýsu í ísskápnum og náði í krabbakjöt í frystinn. Við erum því miður ekki enn komin með matjurtagarð, en góðvinir okkar sem búa 3 húslengdum frá okkur rækta ýmislegt. Sonur þeirra er að safna sér fyrir hesti, ég sendi skilaboð yfir um  hvort að hann gæti ekki selt mér kartöflusmælki og gulrætur. Eftir 10 mín var ég kominn með nýuppteknar gulrætur og kartöflur. Ég ákvað að hafa þriggja rétta fiskmáltíð handa stelpunum. Fyrsti réttur kalt krabbakjötssalat (Surimi) Íssalat frá Lambhaga, vínber, spænskur sauðaostur, avacado, furuhnetur, maldon salt, olífuolía og hvítt balsamiksíróp. Ég bitaði krabbann í netta teninga, setti smjör, kikkoman sojasósu og örlítinn sykur á pönnu og velti bitunum í eina mínútu og kældi.
Ég bjó til salat í skálar handa hverri og einni. Þegar ég geri svona salöt, þá finnst mér skipta svo miklu mál hvernig hvernig er raðað í skálina/ílátið, hvað fer fyrst og svo framvegis. Röðin hjá mér var svona og magnið er eftir tilfinningu og smekk, íssalat, spænskur sauðaostur mulin yfir, vínber skorin, avacado, litlar kúlur skornar með teskeið, balsamik síróp nokkrum dropum dreift yfir, aftur íssalat, furuhnetur, krabbinn, dassi af olífuolíu, örlítið maldon salt milli fingra að lokum. Best að er að gera salatið stuttu fyrir mat, en samt að hafa það stutta stund í ísskáp.100_0491 Ostinn og balsamiksírópið fékk ég í Sælkeraverslun Friðriks V. á Akureyri. Næsti réttur var fiskur sem ég hef ekki eldað mjög lengi  það var ýsa. Ég roðfletti ýsuna og skar hana í passlega bita setti þá í ofn með smjörklípu og örlitlum svörtum pipar úr kvörn í mjög stuttan tíma. Góð regla er að þegar þér sýnist að fiskurinn sé ekki tilbúin, þá er hann einmitt tilbúinn. Ég bjó til ostamakkarónur og bar ýsuna fram á þeim með ferskri gúrku og púrtvínssoðinni nýupptekinni gulrót ( Sjá mynd.....gleymdi að taka myndina strax, en ákvað að hafa hana með þó að það hafi verð byrjað að borða af honum).
100_0495Þriðji rétturinn var smjörsteikt Rauðspretta með smjörsoðnu nýuppteknu kartöflusmælki og steinseljumeðlæti. Rauðsprettunni með roðinu velt upp úr þeyttu eggi ( Eggin koma frá hamingjusömum íslenkum hænum og þau er keypt niður við veg á Göngustöðum í Svarfaðardal, eggin eru í kassa og þú skilur bara eftir pening og tekur egg) ég setti saman rasp, brauðrasp venjulegt, Panko Tælenskt rasp, fínt rifinn parmesanostur og miðjarðarhafssaltblanda frá ww.altunga.is. Fisknum velt upp úr raspblöndunni og steiktur í stuttan tima í smjöri á pönnu, roðið niður fyrst. Kartöflusmælkið steikti ég aðeins á pönnu og setti  í pott með hreinu smjöri og sauð þær um stund.Sannkallað sælgæti eftir að kartöflurnar eru búnar að drekka í sig smjörið. Með þessu bar ég bæði fram papriku og chilli sultuna sem ég sauð um helgina ( Sjá færslu neðar) og steinseljumeðlæti. Steinselja skorin frekar smátt, hvítlaukurinn enn smærra, furuhnetur ristaðar, þessu blandað í skál með ólífuolíu og saltið eftir smekk. Ég gaf stúlkunum hítvín og vatn að drekka með þessum snöggsoðna kvöldverð. Þær voru afar ánægðar og það er fyrir mestu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir okkur kæri Júlli

Við getum með glöðu geði vottað að þetta var allt saman alveg frábært. Við fáum vatn í munninn þegar við hugsum til baka. Það er alltaf svo gaman að koma í mat til ykkar Grétu.

Kærleikskveðja Guðný og tengdó

Guðný (mágkona) og tengdó (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 18:44

2 identicon

Fréttum af þessu flotta matarboði og öfunduðum þær ekkert smá

kveðja frá fjarnemanum á Selfossi

Birna

Skólasystir Guðnýar (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Matarsíða áhugamannsins

Blogg um mat og drykk í sem víðustum skilningi.

Áhugamaðurinn

Júlíus Garðar Júlíusson
Júlíus  Garðar Júlíusson

Um síðuna

Nýjustu myndir

  • iStock 000014807979XSmall
  • iStock 000019931963XSmall
  • iStock 000018872168XSmall

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Spurt er

Hvað borðar þú fisk oft í viku

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband